„Það verður aldrei ekkert í vændum.​“—SKE spjallar við regn.

Viðtöl


SKE: Að öllum líkindum verður sumarsins 2018 minnst sem rigningasumarsins mikla (að minnsta kosti í Reykjavík). Eftir á að hyggja er þetta kannski allt saman tvíeykinu regni. að kenna en sveitin beiddist votviðris í byrjun sumars, eða með útgáfu stuttskífunnar Beðið fyrir regni—sem ber óneitanlega afar forspáan titil: „Ég fell á þurra grund, grundin ávallt góð. Ég hugsa um stund, hvort hún fái nóg?“ spyr rapparinn Elyahsyn í laginu Gegnblautur sem er að finna á fyrrnefndri plötu. Svarið við þessum vangaveltum rapparans, eftir bleytuveður sumarsins, er óhjákvæmilega Já; sagan segir að meira að segja Helga Björnssyni finnist rigningin ekki lengur góð. Búmm tiss … en hvað sem lélegum bröndurum líður heyrði SKE í tvíeykinu regn. fyrir stuttu og spurði þá félaga Skúla Qase og Adam Murtomaa spjörunum úr. Gjörið svo vel. 

Viðtal: RTH
Viðmælendur: Skúli Isaaq Skúlason Qase og Adam Thor Murtomaa
Ljósmynd: Óðinn Dagur Bjarnason

SKE: Já, góðan daginn. Hvað segið þið gott?

regn: Við erum ferskir.

SKE: Hverjir eru Adam og Skúli?

regn: M.V. Elyahsyn (Skúli) og Ómblíður (Adam): tveir soulful munkar úr 101.

SKE: Segið okkur frá hljómsveitinni regn.—hvenær var sveitin stofnuð og hvers vegna?

regn: regn. varð til um áramótin 2017-2018. Við erum báðir saman í listahópnum OTEM og kynntust í gegnum þann hóp. Við gerðum lagið Kviksettur sem smá side-project okkar á milli. Samvinnan blómstraði svo að úr varð .regn.

SKE: Hvernig kom nafnið til?

regn: Nafnið kom til út frá pælingunni á bak við lagið Gegnblautur og mikilvægi regnsins. 

SKE: Vinkona mín kynnti mig fyrir tónlistinni ykkar og þá með orðunum „Loksins eitthvað almennilegt að koma í rappsenuna—þetta er allt farið að hljóma svo generic eitthvað.“ Eruð þið sammála þessum orðum?

regn: Já og nei. Sálrænt („soulful“) Hip Hop er ennþá til staðar í senunni, en það fær bara ekki að njóta sviðsljóssins með meginstreyminu.

SKE: Hvaða tónlistarfólk veitir ykkur innblástur?

M.V. Elyhsyn: Yasiin Bey, Ishmael Butler, Birkir B. og Anderson .Paak. 

Ómblíður: Dilla, Intr0beatz og Ali Shaheed.

SKE: Ef .regn væri CrossFit æfing hvernig myndi sú æfing hljóma? 

regn: Curl-a hljóðnema og taka plötur í bekk. 

SKE: Þið gáfuð út stuttskífuna Beðið fyrir Regni fyrr í sumar. Er meira efni í vændum (myndbönd)? 

regn: Það verður aldrei ekkert í vændum.

SKE: Eitt lag sem allir verða að heyra og hvers vegna? 

regn: Eftir einhvern annan: Isaiah Rashad—4r Da Squaw.  

Eftir okkur: Babakiyo.

SKE: Lagið Babakiyo er einmitt í uppáhaldi—en hvað þýðir Babakiyo? 

regn: Sá heittelskaði /sú heittelskaða.

SKE: Hvernig er sköpunarferlið hjá regn, þ.e.a.s. ferlið frá hugmynd að fullkláruðu lagi? 

regn: Byrjar allt á því að Ómblíður finnur sampl og breytir því í takt. Þar næst skrifar Elyahsyn þær tilfinningar sem endurspeglast í taktinum.

SKE: Uppáhalds tilvitnun / rapplína? 

Elyahsyn: „Umi said shine your light on the world.“ 

Ómblíður: „Þú ert barn stjarnanna og ég er maður mánans / á milli okkar mátturinn og enginn getur verið án hans.“

SKE: Eitthvað að lokum? 

regn: Við viljum bara þakka fyrir áhugann og alla jákvæðu athyglina sem við erum búnir að fá. Við erum mjög auðmjúkir og þakklátir.

(SKE þakkar regn. kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að kynna sér tónlist hljómsveitarinnar nánar.)

Auglýsing

læk

Instagram