„Þarf reglulega að minna mig á hversu stórbrotin hin meðvitaða tilvist er.“

Q&A

SKE: Það er eitthvað stórbrotið við lagið Hvíti Galdur (Geimfarar, Birkir B, 7berg). Trommurnar eru svo rykugar. Bassinn er svo ókurteis. Rappararnir eru svo andlega þenkjandi. Að hlýða á lagið er eins og að sveipa sig kufli og kafa ofan í undirmeðvitundina á meðan ilmur reykelsisins svífur inn um nasirnar: Jóga … Í tilefni lagsins heyrði SKE í rapparanum Birki B og lagði fyrir hann nokkrar viðurkvæmilegar spurningar, en Birkir B er, líkt og allir þeir sem standa að útgáfu SKE, hugsandi, hnyttin manneskja með vel ígrundaðar skoðanir og góðan smekk fyrir tónlist. Gjöriðisvovel:


Sæll, Birkir. Hvað er að frétta?
Thorium, örgeimför sem ná einum fimmta af ljóshraða, gervigreind og next gen róbótar eru allt góðar fréttir. Í persónulega lífinu er allt gott. Er að vinna upp tapaðan tíma í námi, bý með dásamlegri konu og besta kisanum og fólkið mitt virðist vera að dafna vel. Þakklátur.

Hvernig kom lagið Hvíti Galdur til og hvað merkir hugtakið?
Hvíti Galdur fjallar um leitina að hinu góða í því óræða og er leitin sú oftar en ekki er háskaför. Ég sat við að krota setningar á Prikinu eitt sólríkt eftirmiðdegi þegar Bófa Tófan, TY og 7Berg gengu inn. Geoff vinur okkar sagði okkur að gera lag þá og þegar. Ég sýndi strákunum það sem ég hafði verið að krota sem varð síðan að millikaflanum í Hvíta Galdri og TY húrraði okkur heim í kjallara til sín í skriftir og upptökur. Sjálfur dró ég nokkur Tarot spil og skrifaði upppúr þeim versið mitt. Strákarnir höfðu hver sinn háttinn á. Rímurnar þeirra eru stórkostlegar og tala fyrir sig sjálfar. TY er svo á þessu lo-fi boom bappi sem fær hausana til að njóta.

Hefurðu einhvern tímann verið aðnjótandi djúpstæðrar andlegrar upplifunar?
Ég hef átt nokkrar djúpstæðar andlegar upplifanir en málið er að venjuleikinn er svo sterkt afl að það er auðvelt að gleyma því sem maður lærir og fara aftur á sjálfstýringu. Ég þarf reglulega að minna mig á hversu stórbrotin hin meðvitaða tilvist er og hversu heppinn ég er að njóta allífsins með ástvinum á plánetunni Jörð í sólkerfi sem þeysist um á ógnarhraða við endamörk einnar af óteljandi stjörnuþokum alheimsins á meðan ég geri hversdagslega hluti einsog að skera lauk eða kvarta yfir vinstri bak stöðunni hjá Liverpool.

Ef þú værir seiðkarl, hver væri þinn helsti galdur?
Ef ég væri seiðkarl væri minn helsti galdur að elda stórbrotnar máltíðir.

Á hvað ertu að hlusta á þessa dagana og á hvað ertu ekki að hlusta á?
Ég er að hlusta á nýju De La Soul og finnst það ógeðslega gaman í bland við gamalt synthapopp. Ég er ekki að hlusta á neitt sem mig langar ekki að hlusta á.

Hvaða bók lýsir lífi þínu best?
Mig langar að slá um með einhverjum bókmenntalegum stórvirkjum en ef ég á að vera heiðarlegur þá er það Láki jarðálfur.

Er meira efni á leiðinni?
Ég og Ólafur Tómas vinur minn eigum glás af raf/gítarpoppi sem við klárum vonandi einn daginn og gefum út. Ég er alltaf að gera stöku rapplög en er aðallega að einbeita mér að náminu þessa daganna.

Helsta lexía sem þú hefur lært á lífsleiðinni?
Sú lexía sem ég er alltaf að rembast við að leggja á minnið er að maður þarf að vinna fyrir hlutunum.

Besti núlifandi rappari?
Besti núlifandi rapparinn er lærimeistari minn og „the main dude“ Diddi Fel.

Eitthvað að lokum?
Að lokum vil ég hvetja fólk til að vera vakandi fyrir Geimförum og 7Berg því þeir eru menningarlegur fjársjóður sem flestir ættu að njóta.

SKE hvetur alla til þess að kynna sér tónlist Geimfara nánar: https://soundcloud.com/geimfarar

Auglýsing

læk

Instagram