Ivan Mendez sendir frá sér nýjan singúl

„Lagið er 4. singúllinn af EP plötunni 5 Ways to Free a Heart en undanfarið hef ég verið að gefa út nýtt lag á 5 vikna fresti undir þessu verkefnaheiti. Með hverju lagi hefur fylgt dagbókarfærsla um fæðingu lagsins og hugsanirnar á bakvið það. Færslunar er hægt að finna á vefsíðunni minni,“ segir Ivan um lagið en það datt inn á streymisveitur um daginn.

Ivan stundar um þessar mundir nám í tónlistarframleiðslu við háskólann BIMM Berlin en þar er hann að klára sitt fyrsta ár. Hann hefur í gegnum tíðina séð sjálfur um allar hliðar tónlistarframleiðslunnar sinnar en segist nú hafa safnað í kringum sig hóp fólks honum til halds og trausts.

„Þessi EP plata byrjaði sem algjör sólóverkefni, þar sem ég samdi, útsetti, hljóðritaði og hljóðblandaði allt sjálfur en þetta hefur aðeins undið uppá sig núna og nú er ég kominn með alveg heilan helling af fólki í kringum mig sem aðstoðar. Þetta var mest allt tekið upp hér úti í Berlín en þegar mig vantaði píanó útsetninga-upptökur hafði ég samband við vini mína þá Guðjón Jónsson og Sigfús Jónsson (sem kalla sig Hljómbræður) og þeir sendu mér tökur að heiman. Það er búið að vera alveg magnað að fá að vinna með svona mörgum í gegnum þessa EP plötu – það lyfir tónlistinni helling upp.“

Fimmta og síðasta lagið af EP plötunni kemur út 12. júní næstkomandi. En hvað svo?

„Síðan liggur leiðin heim og þá verður farið í að semja meira og undirbúa næsta haust. Við krossum fingur og vonumst til þess að  geta farið að flytja þetta efni fyrir áhorfendur.“

Auglýsing

læk

Instagram