„Við eigum öll að hafa frelsi til þess að vera eins og við viljum vera.“

Auglýsing

Tónlist

Síðastliðinn 11. október sendi hljómsveitin Himbrimi frá sér myndband við lagið Drifting. Lagið er að finna á fyrstu plötu sveitarinnar Himbrimi sem kom út í nóvember í fyrra. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í söngkonu Himbrima, Margréti Rúnarsdóttur, og spurði hana nánar út í plötuna, lagið og myndbandið (sem má sjá hér fyrir ofan).

SKE: Hvað geturðu sagt okkur um plötuna Himbrimi?

Auglýsing

Margrét: Platan Himbrimi fjallar um frelsið og hvað það er sem felst í frelsi hvers og eins. Textar plötunnar eru samdir við ákveðin tímamót og kaflaskipti í lífi mínu; ég var að breytast svo ótrúlega mikið á þessum tíma. Textarnir eru tengdir minni persónu og persónunum sem blunda innra með mér. Stemningin í tónlistinni fangar þessar tilfininngar vel sem við öll í bandinu tökum þátt í að móta.

SKE: Maður skynjar ákveðna angurværð í Drifting. Segðu okkur nánar frá laginu.

Margrét: Lagið Drifting fjallar um hamlanir og raddir samfélagsins sem geta verið svo sterkar og mótað mann og haft áhrif á hvernig maður er að einhverju leyti. Sumar raddir geta dregið úr fólki og einhverju elementi sem býr innra með því. Það fær ekki rými og tíma til að vera í núinu í þessum hraða og kynnast og átta sér á sjálfum sér. Er maður fullkomnlega samkvæmur sjálfum sér, er maður að fylgja hjartanu og hvernig getur maður gert það og orðið besta útgáfa af sjálfum sér? Það er mikilvægt að reyna að sleppa takinu á þessum röddum. Þær þurfa ekki að fylgja manni til eilífðar. Öllu frekar ætti maður að leyfa innra grúvi og elementi að springa út. Að þora, því það er ekkert að óttast. Lífið er of stutt til annars.
Það er oft verið að reyna að segja fólki hvernig það á að vera, það er ákveðin hömlun. Að setja fólk í eitthvað box. Þú ert ekkert bara svona eða hinsegin, það er svo margt sem blundar í hverjum og einum. Mér finnst margbreytileiki mannslífsins svo áhugaverður, skemmtilegur og bara mjög mikilvægur því maður getur lært svo mikið af öllum. Við eigum öll að hafa frelsi til þess að vera nákvæmlega eins og við viljum vera. Þessar raddir og hugur hvers manns er svo sterkt afl.

SKE: Getur tónlistin hjálpað hvað þetta varðar?

Margrét: Tónlistin hjálpar ótrúlega mikið hvað varðar tjáningu og hvað varðar að hleypa þessum tilfinningum og persónum út. Að finna kjarna sinn. Það er allt leyfilegt. Þú mátt segja allt sem þú vilt segja. Það hjálpar manni líka bara að kynnast sjálfum sér og átta sig og vinna í tilfinningum sínum. Maður uppötvar svo margt nýtt um sjálfan sig. Þetta liggur að baki textanum við lagið Drifting. Maður þarf ekki viðurkenningu allra, skiptir mestu máli að maður hafi trúnna sjálfur. Fuglinn Himbrimi er þema bandsins og er tákn fyrir frelsið.

SKE: Hvernig kom myndbandið við Drifting til?

Margrét: Himbrimi og Gaui H ákváðu að taka höndum saman og gera myndband við lagið Drifting.
Myndbandið við lagið fangar þemað vel. Við erum tvær í myndbandinu, ég og Díana Rut Kristinsdóttir. Díana dansar í myndbandinu og gerir það ótúlega vel með öllum sínum töfrum og dulúðleika. Það er svo magnað hvernig hún notar líkamann og hversu mikið vald hún hefur á honum. Dansinn getur sagt margt. Með myndbandinu reynum við að endurspegla útlit fuglsins og dulúðleika. Tvær manneskjur hverfast saman í myndbandinu og takast á við sársauka og djöfla sem þarf að hleypa út. Allt tekur þetta á endurfæðingu, þroska og hamskiptum. Í þessum hamskiptum og ferli þroskans nær þessi manneskja að frelsast.

„Við erum tvær í myndbandinu ég og Díana Rut Kristinsdóttir. Díana dansar í myndbandinu og gerir það ótúlega vel með öllum sínum töfrum og dulúðleika. Það er svo magnað hvernig hún notar líkamann og hversu mikið vald hún hefur á honum. Dansinn getur sagt margt.“

– Margrét Rúnarsdóttir

SKE hvetur lesendur til þess að kynna sér tónlist Himbrima nánar. Einnig viljum við vekja athygli á því að hljómsveitin kemur fram á Airwaves föstudaginn 4. nóvember í Gamla bíó.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram