Á meðan hinn 19 ára gamli Robert Mfune starfaði í hlutastarfi hjá McDonald’s í Southampton í Englandi eignaðist hann nógu mikinn pening til þess að kaupa sér 20 milljón króna Bentley (einnig keypti hann glænýtt hús handa móður sinni.)
Eflaust velta lesendur því fyrir sér hvort að Robert Mfune hafi sigrað í lottó, en nei – velgengni Robert Mfune hefur ekkert með heppni að gera.
Saga hans er svohljóðandi:
Þegar Robert Mfune var aðeins 16 ára gamall framhaldsskólanemi framreiddi hann ekki einungis franskar kartöflur og Big Mac hamborgara út um lúgu McDonald’s heldur sótti hann einnig te handa yfirmönnum hjá virtu fjármálafyrirtæki og viðaði að sér alla þá þekkingu sem honum bauðst. Þar að auki las hann sig til um verðbréfamiðlun í svefnherbergi sínu.
17 ára gamall byrjaði Robert Mfune að stunda verðbréfaviðskipti en þar sem hann var ekki nógu gamall til þess að stofna reikning sjálfur – var viðskiptareikningur hans skráður á móður hans til að byrja með.
Ári seinna stofnaði Mfune loks viðskiptareikning í eigin nafni og í dag gerir hann það gott sem kaupsýslumaður: fjárfestir í kaffihúsum og fasteignum í Bretlandi og í eignum í heimalandi sínu, Suður Afríku.
„Sá tími sem ég var nemandi í framhaldsskóla, starfaði hjá McDonald’s, vann sem tesendill og stundaði verðbréfamiðlun heimafyrir var einn erfiðasti tími lífs míns,“ sagði Mfune í viðtali við the Daily Mail á þriðjudaginn. En Mfune sér ekki eftir neinu:
„Þetta er alveg eins dýrkeypt og að fara í háskólann, þ.e.a.s. hvað skólagjöld og námslán varða – ef þú ætlar að gera stóra hluti þá verðurðu að þjást í nokkur ár.“
– Robert Mfune
Þó svo að dagar hans hjá McDonald’s séu taldir, þá geymir hann ennþá gamla gula einkenningsbúninginn í ramma inni á skrifstofu sinni.
Robert Mfune er 19 ára gamall í dag og nýtur lífsins.
Hins vegar, segir Mfune, að það sem skiptir mestu máli er hagur þeirra sem hann elskar:
„Markmið mitt er að gleðja fólkið í kringum mig.“
– Robert Mfune
Nánar: https://firstwefeast.com/eat/2016/08/19-year-old-mc…
Orð: FN