Íslenskt fyrirtæki á topplistanum í Bandaríkjunum

Íslenska 15 manna fyrirtækið Teatime Games, sem er með höfuðstöðvar á Laugavegi 26, gaf fyrir 10 dögum út leik sem nú er vinsælasta appið í Bandaríkjunum.

Nú um helgina eru fleiri Bandaríkjamenn að hlaða leiknum niður en öppum allra þekktustu netfyrirtækja heims. Leikurinn, Trivia Royale, gekk fyrst mjög vel í Bretlandi þar sem hann var á topp tíu í liðinni viku en fór svo að dreifast hratt um heiminn. Um helgina fór hann í toppsætið yfir farsímaleiki í Bandaríkjunum og upp úr hádegi í dag fór hann svo í toppsætið í App store heilt yfir.

Það kostar ekkert að spila Trivia Royale en hægt er að kaupa hluti í leiknum sem skapar Teatime tekjur.

Teatime er að uppistöðu sama teymi og stóð á bakvið QuizUp spurninga-appið sem sló í gegn fyrir sjö árum. Leikurinn, Trivia Royale, er eins konar QuizUp leikur nema með svipuðu keppnisfyrirkomulagi og Fortnite og fleiri vinsælir leikir þar sem stór hópur keppir innbyrðis í útsláttarkeppni um að standa uppi sem eini sigurvegarinn.

 Leikurinn er einnig fáanlegur í íslensku App store.

Auglýsing

læk

Instagram