„Ég hef lengi vitað að hugmyndaflugi Aðalsteins Kjartanssonar og félaga hans, Þórðar Snæs, eru lítil takmörk sett“

Páll Steingrímsson skipstjóri skrifar…

Hugmyndaflug Aðalsteins Kjartanssonar

Ég hef lengi vitað að hugmyndaflugi Aðalsteins Kjartanssonar og félaga hans, Þórðar Snæs, eru lítil takmörk sett. Skýrast sást það þegar þeim tókst að lesa ýmislegt saknæmt út úr gögnum um sölu á fiski og morgunskeytum skipa. Það er hins vegar hjákátlegt að sjá Aðalstein Kjartansson kvarta yfir kaldri jólakveðju vegna greinar sem ég sendi honum og fannst góð. Honum fannst ekkert athugavert við að hringja í mann sem var rétt stigin upp af sjúkrabeði, eftir að hafa barist fyrir lífi sinu í nokkra daga, og spyrja hann út í gögn sem Aðalsteinn fékk á meðan ég lá á gjörgæslu, í öndunarvél og barðist fyrir lífí mínu. Það voru líka kaldar kveðjur að myndbirta sakborninga þegar sumir af þeim voru í erfidrykkju mjög náins ættingja, já Aðalsteinn það hafa margir fengið kaldar kveðjur frá þér án þess að kvarta og þetta er ekki einu sinni tæmandi listi.

En eitt af því sem þeir hafa haldið á lofti, svo ég vitni beint í Aðalstein Kjartansson: „Eitt augnablik í desember gleymdi ég því að tveir Pálar, Steingrímsson og Vilhjálmsson, hafa undanfarin ár haldið á lofti samsæriskenningu um að ég sé glæpamaður fremur en blaðamaður, sem eitri bjór á Akureyri í þeim tilgangi að komast yfir síma.“  Þessu hefur engin haldið fram nema blaðamannasakborningarnir sjálfir og frá þessu var sagt í  í viðtali sem ég fór í hjá Frosta Logasyni þann 9. júní og var birt þann 12. júni. Þar kemur skýrt fram hjá bæði mér og Evu Hauksdóttir á 58. mínútu viðtalsins að það eru bara blaðamennirnir sjálfir sem hafa haldið þessu fram. Hvernig þeim tókst að lesa þetta úr ummælum mínum er mér með öllu óskiljanlegt, en það er svo sem ekki eins og þeim hafi ekki tekist að lesa ýmislegt út úr gögnum, rétt eins og þeim tókst að búa til heila skæruliðadeild innan Samherja! Á það hefur einn blaðamaður bent í grein sem ber nafnið Skrímslin hafa umkringt Vatnaskóg en í henni er bent á að „rangar fullyrðingar verða ekki sannar við það eitt að þær séu endurteknar“ en Aðalsteinn virðist greinilega halda það miðað við skrif hans.

Eitt af því sem sýnir vel hugmyndarflug Aðalsteins er hvernig honum og félögum hans tókst að tengja saman Facebook-status frá 7. desember 2020 við email sem ég sendi á Stefán Eiríksson 1. júlí 2022 þar sem hann var nú á póstlistanum rétt eins og samstarfsfélagi hans, Þórður Snær. Með því að tengja þetta tvennt saman tekst þeim félögum að búa til hótun í sinn garð og eða annarra blaðamanna og það er kostulegt að sjá Aðalstein segja í sínum pistli „nokkru áður hafði þessi sami Páll talað mjög opinskátt um hvaða skotvopn hann myndi vilja nota á okkur“. Ég hef aldrei skrifað neitt þessu líkt um blaðamenn eða fjölmiðlamenn. Ekki veit ég hvernig tímatalið hjá Aðalsteini er en eitthvað sem gerðist fyrir 18 mánuðum getur varla hafa gerst „nokkru áður“, eða hvað? Ég ætla að taka upp ein ummæli úr þeim samskiptum sem fóru þarna fram undir þessum status sem er Aðalsteini svo hugleikinn og eru einu ummælin þar sem minnst er á blaðamenn en á þeim tíma er Aðalsteinn enn starfsmaður RÚV: „við getum með sömu rökum sagt, eru starfsmenn RÚV 100% heiðarlegir, ef sagan er skoðuð verður svarið nei, en eru þeir þá allir óheiðarlegir og aftur getum við sagt nei, en vinubrögð rikisfjölmiðills hins vegar eiga ekki að vera með þeim hætti að við efumst um heiðarleika hans.“ Já þetta er nú öll illskan og hatrið í garð blaðamanna eða fjölmiðlamanna sem Aðalsteinn vill meina að ég beri til þessarar stéttar. En svo má við þetta bæta að Aðalsteinn hætti á RÚV fyrir hádegi 30. apríl 2021 og byrjaði á Stundini eftir hádegi þann 30. apríl, sem sagt 3 dögum áður en mér var byrlað, var það tilviljun? Ég læt ykkur lesendum um að ákveða það…

Og Aðalsteinn, svo það sé tekið fram, það er enginn í Namibíu í fangelsi. Þeir sem þar hafa setið undir ásökunum eru í gæsluvarðhaldi og hafa verið það í rúm 4 ár án þess að hafa verið ákærðir. Þannig er nú réttarkerfið þar suður frá.

En listinn yfir mál þar sem Aðalsteinn og félagar hafa ekki farið rétt með er miklu lengri en þau dæmi sem hér hafa verið nefnd, við getum talað um Seðlabankamálið þar sem gögn voru lagfærð til að falla betur að ákveðinni mynd sem átti að draga upp af Samherja. Við getum eins nefnt  DNB banka málið þar sem gögn voru lagfærð og atriði fjarlægð sem hefðu sýnt annað en það sem þeir félagar héldu fram. Við getum rætt um Cape Cod þar sem Aðalsteinn gat ekki svarað einfaldri spurningu frá mér. Þeir sem vilja kynna sér það geta skoðað grein sem ber nafnið „Þögn Aðalsteins“ um það mál. Við getum einnig rifjað upp ásakanir Helga Seljans í garð Jón Óttars þar sem meira að segja nafntogaðir fjölmiðlamenn stigu fram sem vitni og sögðust hafa séð Jón Óttar fyrir utan hjá Helga Seljan, en á þeim tímapunkti var Jón Óttar ekki einu sinni á landinu.

En ég hef aldrei uppnefnt eða farið í manninn þegar Aðalsteinn Kjartansson er annars vegar eða nokkur annar blaðamaður. Ég hef eingöngu gagnrýnt vinnubrögð hans og félaga og hefur hann aldrei getað svarað þeim spurningum sem ég hef beint til hans. Það að þola gagnrýni á vinnubrögð sín er eitthvað sem allir þurfa að geta gert, meira að segja blaðamenn. Maður gæti freistast til að halda að öll ógæfa Aðalsteins sé Samherja að kenna þvi flest reynir hann að tengja við útgerðina, samanber kennarann í Garðabæ sem hefur vogað sér að skrifa um vinnubrögð blaðamanna, en veistu Aðalsteinn þér væri nær að líta í eigin barm og skoða þín eigin verk í stað þess að kenna alltaf öllum öðrum um og eff þér er um megn að vanda þig Aðalsteinn, snúðu þér þá bara að einhverju sem hentar þér betur. Ég fell ekki í stafi við það eitt að einhver sé verðlaunablaðamaður, reyndar fer það að vera verðlaunablaðamaður að verða aðhlátursefni svona miðað við stöðuna í dag. En það er önnur saga.

Auglýsing

læk

Instagram