Stendur bönkum ógn af hópfjármögnun? Fundur í beinni útsendingu á Nútímanum

Fundur um hvort bönkum standi ógn af hópfjármögnun fer fram í útibúi Íslandsbanka á Granda klukkan 8.15 á morgun. Fundurinn er öllum opinn en verður einnig í beinni útsendingu á Nútímanum.

Ingi Rafn Sigurðsson frá Karolina Fund og Helga Valfells hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins tala á fundinum en þau hafa mikla þekkingu úr nýsköpunar- og frumkvöðlaheiminum.

Á síðustu tveimur árum hafa sífellt fleiri sjóðir og fyrirtæki á sviði hópfjármögnunar og annarrar óhefðbundinnar fjármögnunar komið fram á sjónarsviðið.

Fyrirtæki á borð við Kickstarter, Indiegogo og Crowdfunder hafa vaxið gríðarlega hratt á stuttum tíma og hafa vakið bankana vestanhafs upp af værum blundi.  Hér á Íslandi hefur Karolina Fund verið leiðandi á sviði hópfjármögnunar og eru verkefnin sem þar hafa verið fjármögnuð afar fjölbreytt.

Á sama tíma hafa svokölluð Peer-to-Peer (P2P) fjármögnunarfyrirtæki einnig látið til sín taka og má þar nefna Lending Club og Prosper í Bandaríkjunum.  Í stuttu máli þá virka fyrirtækin sem milliliður um fjármögnun verkefna og fjárfestinga fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki.

Ingi Rafn segir að eitt að næstu skrefum Karolina Fund sé að veita P2P þjónustu og verða þannig milliliður um fjármögnun verkefna. „Við erum að gera okkur klár að fara inn á þessar brautir,“ segir hann.

Hann ítrekar að Karolina Fund verði ekki banki sem sitji á digrum sjóðum heldur tenging milli aðila sem eru að leita að fjármögnun annars vegar og fjárfestum hins vegar.

Ingi Rafn fjallar nánar um þetta á fundinum á morgun.

Auglýsing

læk

Instagram