Ný mathöll í Vatnsmýrinni – Staðurinn sem fólk vill vera á

Nýverið var mathöllin VERA matur og drykkur opnuð í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni. Með þessari nýju mathöll er verið að koma til móts við eftirspurn eftir veitingastöðum á þessu svæði. Rýmið er sérlega vel hannað og kallast skemmtilega á við húsið sjálft sem er sannkallaður suðupottur mannlífs og menningar.

Við tókum Björn Braga Arnarsson og Hafstein Júlíusson tali en þeir eru eigendur VERU. Í mathöllinni eru átta ólíkir veitingastaðir þannig að flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Innan mathallarinnar er einnig viðburðarsalur sem rúmar um 200 manns og hentar vel undir tónleikahald og aðra viðburði. Rýmið er sérlega notalegt en hönnun þess var í höndum Hafsteins og HAF Studio.

„Þetta er alveg einstaklega glæsilegt og skemmtilegt hús, hérna starfar fjöldinn allur af flottum fyrirtækjum.“ segir Björn Bragi og bætir við að þetta sé afar spennandi umhverfi til að vera í.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu á undanförnum árum. Aðspurður hvort að þetta sé ekki hin fullkomna staðsetning fyrir nýja mathöll segir Björn Bragi: „Jú, við teljum það. Það iðar náttúrlega allt  af lífi þarna – bæði eru tugþúsundir sem vinna í fyrirtækjum í næsta nágrenni, svo er Háskóli Íslands við hliðina og einnig er stutt í Háskóla Reykjavíkur. Svo eru auðvitað stórar íbúðarbyggðir þarna allt í kring, Hlíðarendareiturinn, Vesturbærinn og Skerjafjörðurinn,“ tekur hann sem dæmi.

„Samt sem áður hefur verið frekar fátt um kosti hérna í kring þegar kemur að mat. Fólk hefur þurft að fara inn í 101 til að sækja sér mat, þannig að við lítum á að við séum svolítið að koma til fólksins.“

VERA matur og drykkur hefur nú loks opnað í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni. 

Það kemur því kannski ekki á óvart að viðbrögðin hafa verið góð. „Það hefur ríkt mikil spenna og eftirvæntingin hefur verið mikil.“

Fjölbreyttir veitingaaðilar gera frábæra hluti

En hvaða staði er um ræða? „Þetta eru þrír staðir sem hafa starfað áður, staðir sem fólk gæti kannast við, þ.e. pítsustaðurinn Natalía sem er í Borg 29, að opna sitt annað útibú, Punk Fried Chicken sem er í Gróðurhúsinu í Hveragerði, afleggjari af Punk veitingastaðnum á Hverfisgötu og einnig Mikki refur sem er kaffihús og vínbar á Hverfisgötu,“ telur Björn upp.

Til viðbótar við þessa þrjá eru fimm nýir staðir sem voru að opna í fyrsta sinn. „Það er mexíkóskur staður, asískur staður, súpustaður og morgunverðarstaður. Svo er einn svolítið fínni staður sem sérhæfir sig í kjöt- og fiskréttum og víni, sá heitir Fura og það er kokkurinn Denis Grbic sem á hann.“ Þess má geta að Denis var í kokkalandsliðinu og var valinn kokkur ársins árið 2016.

Það má með sanni segja að fjölbreytnin sé mikil og segir Björn það vera lykilinn að vel heppnaðri mathöll. „Hugmyndin er að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og að þetta sé frábær kostur fyrir t.d. hóp af fólki sem hefur ólíkar þarfir og smekk. Maður vill reyna að tikka í öll box og við teljum okkur hafa tekist vel upp, þetta er mikil fjölbreytni af flottum veitingaaðilum sem eru að gera frábæra hluti.“

Hafsteinn tekur undir. „Fólk er almennt farið að gera auknar kröfur þegar matur er annars vegar – hvað hráefni, gæði og úrval varðar, þá er mathöll fullkomið form af veitingastað.“

VERA matur og drykkur tekur 190 manns í sæti, innan mathallarinnar er svo viðburðarsalur sem rúmar 200 manns til viðbótar. 

Spurðir út í nafn mathallarinnar, VERU, segir Björn: „Okkur finnst þetta fyrst og fremst fallegt nafn, einfalt og stílhreint. Það endurspeglar hugmyndina um að þetta verði staðurinn þar sem allir vilja vera á og eiga góðar samverustundir.“

Fallegt heildarútlit

Rýmið er einstaklega smekklega innréttað en eik, krómhúðað stál og ljóst leður einkennir hönnunina. Tarrazzo-flísar og léttar gardínur setja svo punktinn yfir i-ið. „Nálgunin var auðvitað að gera eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Hafsteinn þegar hann er spurður úr í helstu áherslur í hönnuninni. „Gróska hugmyndahús er virkilega flott bygging og við vildum að VERA matur og drykkur kallaðist svolítið á það. Sömuleiðis vildum við skapa þannig stemningu í rýminu að gestum líði eins og þeir væru að ganga inn á einn veitingastað,“ útskýrir Hafsteinn. Óhætt er að segja að þeim hafi tekist vel til en tengingin á milli veitingastaðanna er skýr með fallegu heildarútliti.

„Yfirbragðið er ekki kaotískt eins og vill oft verða í mathöllum og þar sem er „street food“-stemning, þetta er ögn fínna og rímar vel við húsið.“

Stólarnir eru sérsmíðaðir úr krómhúðuðu stáli og dönsku hágæða leðri.  

Að sögn Hafsteins var spennandi að fá tækifæri til að hanna inn í þetta rými en á sama tíma hafi það verið mikil áskorun enda er plássið óvenjulegt í lögun. „Grunnplanið er sérstakt, það er v-laga og kallaði á hvöss horn og skarpar línur í hönnuninni. Ein eyjan er t.d. bara þríhyrningur,“ útskýrir Hafsteinn.

Rík áhersla var lögð á að skapa notalega stemningu í VERU, m.a. með uppröðun. „Allir veitingastaðirnir eru inn við miðju rýmisins og sætin raðast hringinn í kringum þá, upp við háa gluggana sem eru útveggirnir. Með þessu upplifa gestir að hvert og eitt sæti sé gott en ekki að það sé inni í einhverjum stórum veitingasal.“

Við mælum svo sannarlega með heimsókn í mathöllina VERU, hvort sem er í léttan hádegismat, kvöldmat í fínni kantinum eða eitthvað þar á milli.

 

Umsjón/ Guðný Hrönn
Myndir/ Hákon Davíð Björnsson

Auglýsing

læk

Instagram