Baggalútur á RÚV á aðventunni

Hljómsveitin Baggalútur hefur aflýst fyrirhuguðum jólatónleikum sínum sem halda átti í Háskólabíói í desember. Í tilkynningu frá sveitinni segir að allir miðar verðir endurgreiddir án tafar.

„En. Bíðið við. Hægan. Baggalútur tilkynnir jafnframt, í samstarfi við RÚV, Kósíheit í Hveradölum. Þriggja þátta tónlistarveislu á aðventunni þar sem töfraður verður fram ilmandi og unaðsgefandi jólafílíngur á sjónvarpsskjám landsmanna. Þau veisluhöld hefjast laugardagskvöldið 5. desember og innihalda blöndu af sígildum jólalögum, bestu lögum Baggalúts og brakandi fersku nýmeti fyrir augu og eyru að kjamsa á með fjölmörgum góðum gestum,“ segir í tilkynningunni.

Baggalútur minnir jafnramt á vonarglæðandi hátíðarpoppslagarann „Það koma samt jól“ sem hægt er að heyra víða um net. Rétt er líka að minna á jólaspil Baggalúts, Gott í skóinn, sem er fáanlegt á plotubudin.is.

„Góðir Íslendingar. Upp með sprittið. Upp með grímurnar. Upp með jólaandann. Niður með pestina. Sjáumst á RÚV. Og grímulaus með hringlaga sólskinsbros í troðfullu Háskólabíói í desember 2021. Það koma samt jól,“ segja þeir að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram