Guðmundur Franklín tilkynnti í dag forsetaframboð sitt

Guðmundur Franklín Jónsson, viðskipta- og hagfræðingur, hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis Forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann í dag í beinni á Facebook síðu sinni.

Í ræðu sinni sagði hann að eftir nokkra íhugun og mikla hvatningu hafi hann ákveðið að bjóða sig fram til forseta Íslands. Hann segir framboð sitt í meginþáttum snúast um að efla forsetaembættið, nýta málskotsréttinn og að hann muni leggja sitt af mörkum til að berjast gegn spillingu.

„Það er mikill misskilningur að hlutverk forseta Íslands einskorðist við að brosa framan í erlenda erindreka og flytja ávarp við hátíðleg tilefni. Embættið á alls ekki að vera til skrauts heldur á forsetinn að vinna með virkum hætti í þágu þjóðarinnar og leita allra leiða við að þjónusta hana og styðja. Þjóðin er hér algert lykilatriði en hvorki Alþingi né aðrir embættismenn eiga nokkurn tímann að vera teknir fram fyrir hag hennar enda eru þeir einnig í þjónustuhlutverki gagnvart henni,” sagði Guðmundur.

„Það þarf að breyta hugsunarhættinum á Íslandi því allt of lengi hefur það viðgengist að spillingin fái að grassera og ráðamenn standi aðgerðalausir hjá. Þjóðin, fólkið mitt og börnin mín, hefur ítrekað þurft að kyngja því að stórar upphæðir séu hafðar út úr þjóðarbúinu. Okkur hefur svo liðið eins og við getum ekkert gert, sama hvað við kjósum þá endi þetta alltaf eins. Þessu skulum við breyta. Við þurfum ekki að sætta okkur við þetta.”

„Það er til fólk sem styður ekki spillingu og mun ekki sætta sig við hana. Það er til fólk sem er tilbúið til að breyta þessu og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að kollvarpa þessum illu öflum. Ég er einn af þeim. Ég get ekki horft upp á þetta lengur og ég segi hér með spillingunni stríð á hendur.”

„Ég heiti því og legg við drengskap minn að verði ég forseti mun orkupakki fjögur og fimm ekki fara í gegnum mig heldur fær þjóðin að kjósa um þá. Eins heiti ég því að ESB verði aldrei samþykkt án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég ætla mér að berjast fyrir þjóðina og hætta ekki fyrr en þjóðin fær að eiga sínar auðlindir og sinn auð sjálf. Ég ætla að tryggja að hún sé vel upplýst í öllum málum og fái að taka sem mestan þátt í málefnum sem hana varðar. Mitt framboð er gegn spillingu, með auknu gagnsæi, með beinu lýðræði og fyrir þjóðina. Þetta er það sem ég stend fyrir sem forsetaframbjóðandi og sem manneskja.”

Kosningar fara fram 27. júní næstkomandi nái frambjóðendur, aðrir en sitjandi forseti, tilkyldum fjölda meðmælenda.

Auglýsing

læk

Instagram