Guðni sendir hlýjar kveðjur vestur á firði

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendir Vestfirðingum kveðjur og þakkar viðbragsaðilum á vettvangi fyrir störf sín í kjölfar snjóflóðanna í gær.

„Ég sendi hlýjar kveðjur vestur á firði og ein­lægar þakkir til allra sem brugðust við og sinntu nauð­syn­legum störfum eftir snjó­flóðin á Flat­eyri og í Súganda­firði. Blessunar­lega varð ekki mann­skaði, annað tjón er unnt að bæta,“ skrifar Guðni á Facebook síðu sína í dag.

„Enn vorum við minnt á ægi­mátt náttúru­aflanna. Um leið sönnuðu gildi sitt varnar­garðarnir, sem reistir voru á Flat­eyri eftir flóðið mikla fyrir aldar­fjórðungi, þótt litlu hafi mátt muna nú – slíkur var ham­fara­krafturinn þar,“ skrifar Guðni.

Hann hitti Katrínu Jakobsdóttur, for­sætis­ráð­herra Ís­lands, á reglubundnum fundi í morgun þar sem þau ræddu málin.

„Á reglu­bundnum fundi okkar for­sætis­ráð­herra í morgun fræddi Katrín Jakobs­dóttir mig um fund hennar með al­manna­vörnum í sam­hæfingar­mið­stöðinni í Skógar­hlíð í morgun og þær upp­lýsingar sem þar komu fram. Sem betur fer virðist veður nú ganga niður á Vest­fjörðum en á­fram þarf að hafa vara á, flytja fólk og vistir og veita fólki stuðning og að­stoð eins og þörf krefur.

Ég í­treka góðar kveðjur og þakkir. Á þessum stundum sannast gildi sam­stöðu og sam­kenndar.“

Auglýsing

læk

Instagram