Hópur íslenskra stórpoppara sendir frá sér myndband

Íslendingar hafa staðið sig frábærlega vel í baráttunni við COVID-19 sjúkdóminn, en þetta er langhlaup og enn er a.m.k. mánuður eftir af stríðinu. Núna þegar farið er að hægjast á virkum smitum og Páskar eru í nánd er gríðarlega mikilvægt að landsmenn haldi vöku sinni og haldi áfram að hlýða Víði!

Til þess að hamra heim þessi skilaboð og leggja málefninu lið hefur hópur stórpoppara, ásamt þremur leynigestum, sent frá sér myndband af laginu „Ferðumst innanhúss“. Lagið er betur þekkt á Íslandi sem „Góða ferð“ en er núna flutt við nýjan texta eftir Leif Geir Hafsteinsson.

Allir þeir sem komu að laginu gáfu vinnu sína með glöðu geði, allt til að leggja mikilvægu málefni lið og styðja við frábæra vinnu heilbrigðisyfirvalda og þeirra Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis, Ölmu D. Möller Landlæknis og Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóni.

Leifur Geir samdi textann helgina 28. -29. mars, flutti lagið með Kristjáni Steini syni sínum og birti á Facebook vegg sínum þann 29. mars. Lagið og flutningurinn vakti nokkra athygli, var deilt víða og voru skrifaðar nokkrar fréttir á vefmiðlum um uppákomuna. Í kjölfarið kviknaði sú hugmynd hjá Leifi Geir að gera myndband af laginu í anda „We are the world“, safna saman stórpoppurum Íslands og leynigestunum þremur og fá þá til að taka höndum saman við að hamra heim skilaboðin: „Hlýðum Víði“ og „Ferðumst innanhúss“ núna fyrir páskana.

Allur söngur var tekinn upp sem myndband á snjallsíma þátttakanda og einu leiðbeiningarnar sem söngvararnir fengu voru þessar:  

  •  Við sjáum fyrir okkur að yfirbragð myndbandsins verði í „verum heima“ stílnum, þ.e. heimilislegt, eðlilegt og tilgerðarlaust. 
  • Endilega verið frjó í því hvar þið takið upp, látið vaða á skemmtilegar hugmyndir og hafið í huga að boðskapur lagsins er jú að búa til ævintýri úr hversdagsleika heimilisins.
  • Hafið símann í uppréttri „Portrait“ stöðu
  • Þátttakendur hittust aldrei á meðan ferlinu stóð, voru heima hjá sér við tökur og þannig voru allar reglur um nánd, samkomubann og það að halda sig heima virtar 100% við vinnslu lagsins.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið í heild sinni.

 

 

Auglýsing

læk

Instagram