Ísland alls ekki tilbúið til að taka á móti svona mörgum ferðamönnum

[the_ad_group id="3076"]

Hún flutti frá Póllandi til Íslands fyrir sautján árum og starfar sem ráðgjafi í Landsbankanum. Hún er afar hrifin af íslenskri náttúru og stundar sjósund og köld böð í miklum mæli. Á síðasta ári keppti hún fyrir Íslands hönd í skriðsundi í köldu vatni á alþjóðlegu móti í Póllandi og hreppti bronsið. Í janúar fer hún ásamt fjórum öðrum og keppir á móti í frönsku Ölpunum.

Agnieszka Narkiewicz-Czurylo hafði stundað köld böð í nokkur ár en byrjaði í sjósundi árið 2018. „Ég fór á námskeið til Ernu Héðins og hjá henni hófst nýtt ævintýri sem er sund í köldu, opnu vatni. Ég fór að synda
og þá mest í sjónum en líka í vötnum, eins og Þingvallavatni, Kleifarvatni, Skorradalsvatni, Lagarfljóti, Fjallsárslóni og víðar. Annars syndi ég mest í Nauthólsvík og fer um það bil tvisvar eða þrisvar í viku. Stundum skrepp ég upp á Akranes, þá um helgar, og syndi þar í sjónum.“ Agnieszka stofnaði hóp í kringum köld böð og sjósund, Félagasamtökin Zimnolubni Islandia (Kuldaunnendur Íslands) sem er með um áttatíu meðlimi en þrjátíu þeirra eru virkastir, að hennar sögn. „Flestir meðlimirnir eru Pólverjar en það er ein íslensk kona í hópnum. Við komum saman í Nauthólsvík á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan sex síðdegis. Stundum erum við bara tíu sem mætum en það kemur líka fyrir að við séum alveg upp í þrjátíu,“
segir hún brosandi. „Við erum öll í vinnu og hjá mörgum er mæting í sjósund klukkan sex aðeins of snemmt því þeir eru að vinna til sex og eiga þá eftir að koma sér á staðinn. Við höfum reynt að fá þessu breytt, að opnunartíminn verði lengdur eitthvað en Reykjavíkurborg hefur ekki orðið við því.“

„Þótt ég hafi ekki farið að æfa skriðsund fyrr en í
október 2020 og því ekki með langa sundreynslu
tókst mér samt fyrir Íslands hönd að vinna bronsið
í mínum aldursflokki.“

Ekki aftur snúið
Pólskur sundmaður sem kom til Íslands á síðasta ári hvatti Agnieszku til að taka þátt í sundkeppni í Póllandi þar sem synt var í köldu vatni. „Keppnin fór fram í Glogów í febrúar á þessu ári og var mín fyrsta sundkeppni á ævinni. Þetta var alþjóðleg keppni og ég synti undir íslenskum fána. Þótt ég hafi ekki farið að æfa skriðsund fyrr en í október 2020 og því ekki með langa sundreynslu tókst mér samt fyrir Íslands hönd að vinna bronsið í mínum aldursflokki sem er 45-49 ára og synti 250 m skriðsund,“ segir Agnieszka ánægð.

„Eftir þessa fyrstu keppni varð ekki aftur snúið og ég fann að mig langaði að halda áfram að taka þátt í þeim. Í svona keppnum hittir maður fólk sem er vinalegt, skemmtilegt og deilir áhuganum á því að synda í köldu vatni. Það er mikið hægt að læra af fólki sem býr yfir reynslu á þessu sviði. Allir voru svo glaðir og andrúmsloftið einstakt, ekkert stress og allir hvöttu alla. Samt er nú ekki hægt að segja að þetta sé einföld íþrótt,“ bætir hún við. „Ég er stolt af því að nú, fljótlega eftir áramótin, munum við fimm taka þátt í þessu alþjóðlega sundmóti fyrir Íslands hönd sem verður haldið að þessu sinni í Samoens í frönsku Ölpunum. Þau sem koma með mér eru mjög reynslumikið sundfólk, öfugt við mig, en á móti kemur að þetta verður þeirra fyrsta keppni í köldu vatni. Við erum öll pólsk og búum á Íslandi þar sem okkur finnst öllum gott að búa. Ég er sú eina þeirra sem er með íslenskan ríkisborgararétt. Öll eigum við sameiginlegt að elska íslenska náttúru og kyrrðina sem einkennir landið.“

[the_ad_group id="3077"]

Um 500 keppendur frá 36 löndum
Keppnin verður haldin dagana 12.-15. janúar 2023 í frönsku Ölpunum á stað sem heitir Samoens. Vatnið sem synt verður í heitir Lac du Bois aux Dames. Það koma um það bil 500 keppendur frá 36 löndum. Vatnið á þessum árstíma er í kringum þrjár gráður. Það hlýtur að krefjast mikils undirbúnings að taka þátt í svona keppni. Agnieszka segir svo vera. „Ég syndi mánudaga, miðvikudaga og föstudaga, tvisvar hvern dag, samtals 10-15 kílómetra í viku í venjulegri sundlaug og tvisvar, þrisvar í viku syndi ég tvo til þrjá kílómetra í sjónum. Í sjónum er það aðallega kuldaþolið sem ég æfi en í sundlauginni mest tækni og þol. Ég leita líka að styrktaraðilum sem gætu aðstoðað okkur við að fjárfesta í ferðinni fyrir okkur keppnissundmennina. Að taka þátt í svona alþjóðlegri keppni er dýrt og við þurftum að borga allt sjálf.“

 

Þetta er fimmta alþjóðlega meistarakeppnin á þessu sviði, sú þriðja sem Ísland tekur þátt í en í mars 2019 keppti Birna Hrönn Sigurjónsdóttir fyrir Íslands hönd í Murmansk í Rússlandi og í febrúar 2022 var keppnin haldin í Póllandi, eins og hefur komið fram, þar sem okkar kona tók þátt með svo góðum árangri. Keppendur Íslands árið 2023, fyrir utan Agnieszku, verða Marta Piasecka, Mateusz Blacha, Maja Olszewska og Przemyslaw Pulawski.

Margt og mikið fram undan
„Áhugamál mín eru mikið tengd náttúrunni sem ég hef sterk tengsl við. Mér finnst gaman að klífa fjöll og ferðast um Ísland. Stundum tek ég þátt í utan-vegahlaupum. Ég hef líka gaman af því að lesa og prófa og læra eitthvað nýtt. Kuldi tengist auðvitað áhugamálum mínum, öndun líka og náttúrulækningar. Mér finnst gaman að skipuleggja ferðir og núna í september á þessu ári fór ég með átján konur til Lissabon í Portúgal. Fram undan er ýmislegt fyrir utan stóru keppnina í Frakklandi, ég fer til Póllands til að taka þátt í alþjóð-legri ráðstefnu með alls konar hópum sem stunda köld böð. Mig langar mjög mikið að fara til Grænlands og synda í sjónum þar í júní en það er frekar dýrt svo ég er ekki viss um að sá draumur rætist.

Ég hef lært Slow Jogging, svokallað japanskt hlaup sem er hreyfing fyrir alla, sérstaklega eldri borgara eða fólk sem er ekki í góðu formi og langar að fara að hreyfa sig. Ég ætla að fara að hitta fólk á laugardögum til að kenna þessa hreyfingu. Svo er enn eitt, eða skipulagning á íssundi hér á Íslandi, Ísland Blikari. Þetta er svolítið flókið í undirbúningi en við í Zimnolubni Islandia sjáum um það.

„… mér finnst svolítið sárt að sjá hvað Ísland er opið
án þess að tillit sé tekið til náttúrunnar.
Að mínu mati er Ísland alls ekki tilbúið
til að taka á móti svona mörgum

ferðamönnum.“

Of mikill ágangur ferðafólks
Agnieszka planar reglulega eitthvað skemmtilegt fyrir kuldaunnendahópinn sinn, oft ferðalög til að sýna fólkinu fallega staði hér á landi. „Ég býð líka erlendum gestum hingað til Íslands til að halda fyrirlestra, eins og um öndun eða annað sem getur hjálpað fólki að þróa sig t.d. í sjósundi. Margir Pólverjar eru einmana hér á landi og ég hef reynt að bjóða þeim sem ég veit af að koma í sjósund til að prófa eitthvað nýtt og líka til að kynnast öðru fólki og eiga sér líf fyrir utan vinnuna og leiguherbergið.“

 

Hún á alltaf erfitt með að svara því hvort hún eigi sér uppáhaldsstað á Íslandi. „Já, það er erfið spurning, ég elska Ísland í heild sinni. Ég hef gengið um allt og ekið um hér og þar en get ekki nefnt neitt sem ég tek fram yfir annað og er í sérstöku uppáhaldi. Svo er það annað … mér finnst svolítið sárt að sjá hvað Ísland er opið án þess að tillit sé tekið til náttúrunnar. Að mínu mati er Ísland alls ekki tilbúið til að taka á móti svona mörgum ferðamönnum. Ferðafólkið bæði gengur og keyrir fyrir utan slóðana. Ég sé stóran mun á mörgum stöðum, hvað náttúran er skemmd og hefur ekki fengið hvíld til að endurnýja sig,“ segir Agnieszka að lokum. Við óskum henni og öllum hópnum góðs gengis í komandi keppni.

Umsjón: Ritstjórn Vikunnar
Myndir: Úr einkasafni

Auglýsing

læk

Instagram