today-is-a-good-day

Jaðarlistir lifa í Reykjavík í sumar

Ákvörðun hefur verið tekin af stjórnendum jaðarlistahátíðarinnar Reykjavík Fringe að hátíðin fari fram í sumar á sömu dagsetningum og áætlað var, það er 4.-12. júlí. Hátíðin fer þó fram með breyttu sniði.
Búist var við um 50 atriðum erlendis frá, með yfir hundrað listamönnum, en allir erlendir listamenn hafa verið afbókaðir með lifandi atriði, en þess í stað verður þeim boðið upp á að streyma atriði sín á sérstakri RVK Fringe rás.
Búist er við að innlend atriði geti enn sýnt sín atriði á sviði, miðað við að samkomubann verði ekki í gildi í júlí.
Hátíðarstjóri Nanna Gunnars hefur þetta að segja: „Það er búið að aflýsa svo mörgum viðburðum og hátíðum í ár, sem hjálpar ekki til við að halda jákvæðninni og atorkunni á þessum skrítnu tímum. Okkur fannst mikilvægt að gefa listamönnum þennan vettvang til að hafa eitthvað til að stefna að og hlakka til. Það er líka mikilvægt fyrir almenning að hafa einhverja lifandi viðburði til að fara á þegar samkomubanni verður aflétt, og fá tækifæri til að styrkja við sjálfstæða listamenn sem hafa annars komið mjög illa út úr samkomubanninu. Við erum enn með tugi innlendra atriða sem geta tekið þátt, svo það er af nógu að taka.“
Reykjavík Fringe fer fram í þriðja sinn í sumar, en á hátíðinni geta gestir séð alls konar listform, þ.á.m. leiklist, kabarett, ljósmyndasýningar, sirkús, drag, málverkasýningar og uppistand. Miðaverði er haldið í lágmarki og áhersla er lögð á sköpunargleði og nýstárleika.
Á fyrri hátíðum hafa gestir m.a. getað hlegið sig máttlausa á uppistandi með Hugleiki Dagssyni og Jono Duffy, troðfyllt húsið á sýningum Drag-súgs, séð innsetningu Báru Halldórsdóttur þar sem hún var innilokuð í búri og dáðst að danshátíð Unnar Elísabetar Ég býð mig fram. Jono Duffy, Drag-súgur og Bára snúa öll aftur með sýningar í sumar. Fyrir þá sem eru að leita að einhverju lengra á jaðrinum, býður listakonan Kimi Tayler upp á silent disco látbragðsleiks göngutúrs partý!
Um 250 Fringe hátíðir eru til í heiminum, en sú elsta og stærsta þeirra er hin árlega Edinborgarhátíð, sem hefur nú verið aflýst í fyrsta sinn í 73 ára sögu hátíðarinnar.
Til stóð að halda RVK Fringe á 7 sýningarstöðum í ár, en vegna aðstæðna verður sýningarstöðum fækkað niður í 4. Dagskráin verður kynnt þegar ljóst þykir að lifandi viðburðir geti átt sér stað.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu hátíðarinnar: RVKfringe.is
Auglýsing

læk

Instagram