Jónas Sig:„En ég vissi ekki hvað Vísindakirkjan er rosaleg í að reyna að heilaþvo fólk og eltast við það“

Jónas Sigurðsson er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. Jónas sló í gegn á sínum tíma sem söngvari Sólstrandagæjanna, sem áttu meðal annars hittarann Rangur Maður. Hann er einnig tölvuforritari og vann lengi fyrir tölvurisann Microsoft. 

Þegar Jónas vann hjá fyrirtækinu var hann valinn í hóp efnilegasta fólks fyrirtækisins sem áttu seinna að verða stjórnendur þess. Þetta var að hans sögn frábær tími en hann fór að efast um þetta allt saman þegar hann sá að markmið fyrirtækisins var einungis að skila hagnaði með öllum þeim leiðum sem til þurfti. Í einskonar tilvistarkreppu kynntist Jónas vísindakirkjunni.

„Ég var rosalega leitandi þarna þegar ég bjó í Kaupmannahöfn, ég var með mikinn kvíða sem ýtti mér út í rosalegt sjálfsniðurrif og neikvætt sjálfstal, sem endaði oft með því að ég var alveg búinn á því. Þannig að ég er að labba þarna einhvern tíma niður Köbmagegade þegar það kemur að mér kona og segir að ég sé rosalega bjartur og flottur og eigi að koma í persónuleikapróf hjá vísindakirkjunni.“

„Ég lét til leiðast og þegar ég sagði þeim að ég væri búinn að lesa helstu bækurnar þeirra, þá urðu þau ennþá spenntari að fá mig inn. En ég vissi ekki hvað Vísindakirkjan er rosaleg í að reyna að heilaþvo fólk og eltast við það. Ég var svo örvæntingarfullur á þessum tíma að ég samþykki að fara á námskeið hjá þeim, en svo endar þetta námskeið bara aldrei. Ég er bara kallaður aftur og aftur á fundi og látinn leysa frá viðkvæmustu leyndarmálunum, sem þau síðan geyma í gagnagrunni.“

Jónas segir að hann hafi endað í hálfgerðum yfirheyrslum, þar sem átti að ná honum endanlega inn.

„Á endanum var ég látinn taka eitthvað sex klukkutíma yfirheyrslu prógram og eftir það var sagt við mig: „Jónas þú ert snillingur og það er þess vegna sem þér líður svona, fólk skilur þig bara ekki. Þú ert bara miklu klárari en hinir, en við erum með fullt af svona fólki eins og þér hérna hjá okkur í vísindakirkjunni.“ Svo virkar egóið hjá manni þannig að mér fannst þetta bara frábærar fréttir. Svo fór ég að skoða vinnubrögðin þeirra betur á netinu og þá sá ég að þeir fara í mál við alla sem reyna að skrifa bók um þá eða tala um hvernig þeir vinna og þá byrjaði ég að átta mig.“

Í viðtalinu fara þeir Sölvi og Jónas víða og ræða meðal annars stöðu upplýsingaflæðis í nútímanum,gervigreind, algóritma, tónlistina og ástríðurnar í lífinu. Þáttinn í heild má sjá hér að neðan.

Auglýsing

læk

Instagram