„Ekki fokka í mér, ég er úr Breiðholtinu“

Auglýsing

„Ég hef alltaf lagt mjög mikla áherslu á að rækta sambandið við vini mína og í seinni tíma er ég meira að segja farin að gera enn meira af því. Það auðvitað hefur djúpstæð áhrif að ganga í gegnum þá reynslu að missa einhvern nákominn og fær mann til að hugsa hver minningin um mann verði, því minningin lifir,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Lilja ólst upp í Breiðholti. Foreldrar hennar voru þar frumbyggjar og byggðu sér raðhús í Vesturbergi árið sem hún fæddist, 1973. Á einum veggnum á ráðherraskrifstofunni hangir veggspjald sem á stendur: Ekki fokka í mér, ég er úr Breiðholtinu. Hún segist vera mikill Breiðhyltingur í sér. „Mér fannst æðislegt að búa þar og á yndislegar minningar úr Fellaskóla, úr Breiðholtssundlauginni og af öllu þessu svæði. Pabbi heitinn var ákaflega stoltur af því að hafa verið einn af frumbyggjunum þar og var mikill Breiðholtsmaður. Honum fannst til dæmis ótrúlega skrýtið að ég skyldi fara í Menntaskólann í Reykjavík, MR, en ekki Fjölbrautaskólann í Breiðholti, FB.“

Hægt er að lesa viðtalið við Lilju Dögg og nýjasta tölublað Vikunnar á áskriftarvef Birtíngs.*

„Ég segi í dag að það sé svo sannarlega gott að vera samviskusamur en samviskusemin má ekki yfirtaka allt. Ég fór alveg viljandi að vinna í því að verða svona örlítið kærulausari á sumum sviðum.“

Hvers vegna varð MR fyrir valinu?

„Það er saga að segja frá því. Ég var mjög náin langömmu minni, Guðnýju Jónsdóttur. Hún var mikill frumkvöðull, rak meðal annars matsölu í Aðalstræti 12, og var mjög virk í verkalýðshreyfingunni þar sem hún stóð í stafni alveg frá árinu 1925 til um 1965. Hún var formaður í verkalýðsfélagi fólks í veitinga- og þjónustugeiranum og var í Alþýðubandalaginu. Það eru til alveg ótrúleg bréf þar sem hún var að taka hina og þessa í gegn þegar var brotið á réttindum verkafólks. Mér fannst langamma mín svo skemmtileg og bara alveg æðisleg, ég sótti mjög mikið í návist hennar og við vorum rosalega nánar. Hún fylgdi mér til dæmis í skólann á fyrsta skóladeginum mínum í Fellaskóla.

Auglýsing

Langamma mín talaði alltaf við mig eins og ég væri fullorðin manneskja og þar sem hún leiddi mig eftir ganginum í skólanum bað hún mig um að lofa sér því að ég myndi fara í Menntaskólann í Reykjavík þegar þar að kæmi. Ég sagðist lofa henni því og ég stóð við það. Þannig að loforð mitt við langömmu mína var nú aðalástæðan fyrir því að ég fór í MR. Pabbi reyndi oft að fá mig ofan af þessu. Honum fannst mjög eðlilegt að ég myndi fara í FB þar sem við vorum Breiðhyltingar og honum fannst þetta nú óþarfa tildur eða snobb að fara í Menntaskólann í Reykjavík. Ég er reyndar á því að það að hafa verið í Fellaskóla og svo í MR hafi gert mig að góðum menntamálaráðherra. Ég vissi allt um mikla félagslega breidd, hvaða áskoranir fylgja henni, og bæði Fellaskóli og MR voru frábær undirbúningur fyrir starf mitt sem menntamálaráðherra. Mér þykir ofboðslega vænt um báða þessa skóla.“

*Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.

 

Viðtal: Guðrún Óla Jónsdóttir
Mynd: Hallur Karlsson

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram