Nova fyrst með 5G þjónustu á landinu

Póst og fjarskiptastofnun hefur úthlutað Nova 5G fjarskiptatíðnum og er fyrirtækið fyrst með það kerfi hér á landi. 5G þjónusta Nova fór í loftið í dag en prófanir höfðu staðið yfir hjá fyrirtækinu í rúmt ár. 5G sendum Nova mun fjölga jafnt og þétt á næstunni en þegar eru komin á markaðinn ýmis tæki sem styðja 5G og fljótlega munu flest ný tæki og farsímar geta nýtt sér 5G.

5G hefur verið að ryðja sér hratt til rúms á stærstu þéttbýlissvæðum heims en hraði og flutningsgeta gagna með 5G er um tífalt meiri en á 4G kerfinu.

Uppbygging 5G hleypur á milljörðum króna – mikilvæg innviðafjárfesting fyrir Ísland

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir að þess verði ekki langt að bíða þar til meirihluti Íslendinga geti not 5G. „Það skilja allir hvaða áhrif aukinn nethraði getur haft. Framfarir á þessu sviði hafa reglulega valdið byltingu í því hvernig við vinnum, njótum afþreyingar og eigum samskipti. Það er mjög mikilvægt fyrir fólk og fyrirtæki á Íslandi að tæknilegir innviðir okkar séu á pari við það sem best gerist í heiminum því samfara aukinni flutningsgetu og hraða í fjarskiptum verða til tækninýjungar og nýsköpun sem erfitt er að sjá fyrir. Kórónaveirufaraldurinn hefur flýtt þróuninni og kröfur hafa stóraukist um að geta unnið óheft og hvar sem er í gegnum netið. “ Margrét segir að heildarkostnaðurinn við uppbyggingu á 5G fjarskiptakerfi Nova hlaupi á milljörðum króna.

Hvað breytist með tilkomu 5G? 

Margt sem við þekkjum mun breytast með tilkomu 5G. Ofurhröð stöðug sítenging verður veruleikinn, jafnvel í miklum mannfjölda og þar sem mikið álag er á fjarskiptum. Hægt verður að spila fjölspilunarleiki hvar sem er og hlaða niður kvikmyndum á augabragði. Borgir geta orðið snjallborgir þar sem samgöngur, byggingar og fólk er allt samtengt. Þannig geta öll tækin, sem við notum, tengst í bakgrunninum og skipst á upplýsingum um þarfir okkar þannig að við eyðum minni tíma í að stjórna þeim og fáum meiri tíma til að sinna hugðarefnum okkar. Talið er að þessi sítenging tækja muni auka þörf fyrir gagnaflutninga tí- eða tuttugufalt á skömmum tíma. 5G mun að jafnaði skila 150-200 megabita hraða á sekúndu (Mbps) en fara reglulega upp fyrir 1000 megabit á sekúndu (1Gbps). Þessi hraði í gagnaflutningum gerir mögulegt að framkvæma ýmsa hluti sem lengi hafa verið taldir til vísindaskáldskapar, svo sem að eiga símtöl í heilmynd (hologram).

Stjórnvöld leggja áherslu á 5G-væðingu stærstu íbúasvæða landsins fyrir árslok 2021

Úthlutun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) á 5G tíðnum til fjarskiptafyrirtækja mun einungis gilda til skamms tíma eða til loka árs 2021. Endurnýjun tíðniheimildanna mun ráðast af því hvort viðmið PFS hafi verið uppfyllt, en stjórnvöld leggja áherslu á hraða 5G væðingu stærstu þéttbýliskjarna landsins. PFS reiknar með að fyrir árslok 2021 geti allt að níu þéttbýliskjarnar á landbyggðinni, auk höfuðborgarsvæðisins, vænst þess að hafa aðgang að 5G þjónustu, þ.e. meðaltalsgagnflutningshraða upp á 200 Mb/s. Búist er við að sá hraði haldi áfram að aukast samfara uppbyggingunni og að flestir þéttbýliskjarnar muni hafa aðgang að 5G í framtíðinni.

Samsung og OnePlus komnir með 5G síma en búist er við að Apple kynni iPhone með 5G í haust

Samsung og OnePlus hafa nú þegar komið með síma á markað sem styðja 5G og fást þeir  hjá Nova. Nú þegar opnað hefur verið fyrir 5G tíðnir á Íslandi er þess að vænta að framleiðendur þessara  tækja opni fyrir 5G notkun á Íslandi. Fyrr er ekki hægt að nota þau á 5G. iPhone, sem er einn vinsælasti farsíminn hér á landi, styður ekki 5G að svo stöddu en fastlega er búist er við að Apple kynni iPhone með 5G í haust. Almenningi býðst hins vegar að koma og prófa þennan mikla 5G hraða í fartölvu og síma á 5G netinu í verslun Nova í Lágmúla 9.

Nova hefur verið leiðandi í innleiðingu nýrra kynslóða fjarskiptatækni

Nova stefnir á hraða uppbyggingu 5G kerfisins. Nova hóf fyrst prófanir á 3G hér á landi árið 2006, fyrirtækið var fyrst með 4G þjónustu árið 2013 og 4.5G þjónustu árið 2017. Fyrirtækið hóf í febrúar 2019 prófanir á 5G og nú þegar fyrirtækinu hefur formlega verið úthlutað tíðnum getur Nova veitt almenningi 5G þjónustu. Samstarfsaðili Nova í uppbyggingu 5G fjarskiptakerfisins er alþjóðlega fyrirtækið Huawei Technologies en Huawei er leiðandi í þróun háhraða farsímatækni og hefur gert samning við mörg stærstu fjarskiptafyrirtæki í heiminum um 5G uppbyggingu.

Nova mun samhliða innleiðingunni á 5G byrja að fasa út 3G fjarskiptakerfi fyrirtækisins og gerir ráð fyrir að taka niður síðasta 3G sendinn fyrir lok árs 2023

Auglýsing

læk

Instagram