today-is-a-good-day

Telja þrefalt fleiri hafa fengið veiruna en greindust með hana

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, greindi frá því í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær að niðurstöður úr Covid-mótefnamælingum Íslenskrar erfðagreiningar bentu til þess að þrisvar sinnum fleiri Íslendingar hafi fengið kórónuveiruna en greindust með hana. Þetta kemur fram á vef vísis

„Og við vitum nokkurn veginn hversu stór hluti íslenskrar þjóðar er með mótefni gegn þessari veiru. Það er í kringum eitt prósent. Ef þú tekur í burtu þá sem eru með staðfesta sýkingu eða voru í sóttkví, tekur þá út fyrir sviga, þá er um það bil eitt prósent af þjóðinni sem er með mótefni gegn veirunni, sem bendir til þess að það séu svona þrisvar sinnum fleiri sem urðu fyrir veirunni heldur en greindust með veiruprófunum,“ sagði Kári.

Kári var einnig spurður út í fyrirhugaða veiruskimun á Keflavíkurflugvelli og kvaðst hann þeirrar skoðunar að skimunina þyrfti að framkvæmda, annað væri ábyrgðarleysi.

„Þegar maður veltir fyrir sér þessari opnun landamæra þá hefur vaknað sú spurning hvort það sé í sjálfu sér einhver ástæða til að skima. Það hefur meðal smitsjúkdómalækna komið upp sú spurning hvort það sé þess virði að setja í það þann starfskraft sem til þarf. Mér finnst þetta ósköp eðlileg spurning og ég er alls ekki viss um að skimunin komi til með að skila miklu. En ég held að sá möguleiki sé fyrir hendi að hún geri það,“ sagði Kári.

„Og ég held að það sé nauðsynlegt að opna landið en ég held að það sé líka skynsamlegt að gera allt sem við getum til að minnka hættuna sem stafar af því. Og það væri ábyrgðarlaust að prófa ekki þessa skimun. Eftir tvær vikur má vel vera að við sitjum uppi með þá reynslu að hún skili engu, og ég vona svo sannarlega að það reynist vera svo. En það er líka sá möguleiki fyrir hendi að skimunin leiði í ljós að það streymi inn í landið svolítið af smituðu fólki sem þyrfti að setja í einangrun og sóttkví.“

Auglýsing

læk

Instagram