Tónlistarkonan Alvia var ekkert nema skugginn af sjálfri sér: „Mig langaði ekki að lifa lengur“

„Svona 2017 að þá missi ég tökin á neyslunni og enda í morfínneyslu. Það tók mig alveg í fjögur ár. Náði svo að hætta því fyrir tveimur og hálfu ári síðan og þá byrjaði ég í sprautuneyslu í eitt ár með amfetamíni. Ég var samt svo ánægð að vera laus við morfínið á þeim tíma,“ segir tónlistarkonan Andrea Rán Jóhannsdóttir, betur þekkt sem Alvia Islandia en hún kom fram í mjög einlægu og opinskáu viðtali hjá Götustrákunum á Brotkast á dögunum. Þar lýsti Alvia því hvernig hún var fangi fíkniefna – föst á stað sem hún vildi alls ekki vera á. Allt hafi þó verið skárra en morfínneyslan.

„Ég varð fyrir áföllum þegar ég var krakki og síðan halda bara áföllin áfram að hrannast upp í neyslunni.“

Alvia var gríðarlega vinsæl á sama tíma og hún var að missa tökin á neyslunni sinni en árið 2016 gaf hún út plötuna „Bubblegum Bitch“ og svo ári síðar átta laga skífu sem hét „Elegant Hoe“. Báðar plöturnar hlutu lof gagnrýnenda á Íslandi en Alvia þótti rappa á „kynþokkafullan, hvíslandi hátt, er ertandi og stríðandi en um leið gamansöm og flippuð“ segir til að mynda orðrétt í plötudómi Morgunblaðsins frá því laugardaginn 9. september árið 2017. Árið sem Alvia missti tökin.

Alvia gefur út nýtt myndband: "Level Loco"
Alvia segir að lykillinn að edrúmennskunni fyrir hana sé að vinna í áföllunum.

Frá sprautunni í krakkið

„Mér fannst einhvern veginn það skárra en að vera skugginn af sjálfum mér. Vera föst í einhverju. Ég þoldi ekki áhrifin og ég þoldi ekki fráhvörfin. Var búin að eyða einhverjum milljónum í þetta og mig langaði ekki að lifa lengur. Ég flyt til Spánar og kem síðan heim – hætti í janúar í fyrra í sprautuneyslu og byrja þá í krakkneyslu sem var ekkert skárri,“ en samt örlítið skárri en morfínneyslan sem Alvia segir að hafi verið mjög erfitt að losna við.

„Það var alveg erfitt. Ég fór inn á Vog en ekki í þessa viðhaldsmeðferð,“ segir Alvia og bætir við að hún hafi náð árangri á þeim tíma þrátt fyrir bakslag. Hún hafi til að mynda tekið bílprófið, 27 ára gömul, en hún hafi svo misst það í kjölfarið enda hafi neysla hennar hafist á ný. Hún hafi þó sótt viðtalstíma hjá fíkniráðgjafa sem hún segir að hafi hjálpað sér.

Þarf að vinna í áföllunum

„Síðan þá hefur þetta verið þannig að ég hef hægt og rólega verið að ná mér upp. Fór í meðferð í október og flutti til ömmu minnar eftir það. Er þar í rólegu og heilbrigðu umhverfi og síðan þá hafa hlutirnir verið að gerast,“ segir Alvia sem stefnir ótrauð inn í tónlistarsenuna á ný með útgáfu á nýrri tónlist.

En hvað var það sem Alvia þurfti að gera til þess að verða edrú?

„Þegar maður byrjar ungur í neyslu – ég varð fyrir áföllum þegar ég var krakki og síðan halda bara áföllin áfram að hrannast upp í neyslunni. Ég fattaði að ég þarf að vinna í þessum áföllum til þess að geta verið edrú. Annars er ég bara með þetta hegðunarmynstur sem fer í gang alveg sama þótt ég sé á góðum stað,“ segir Alvia sem var mikið hrósað af Götustrákunum fyrir að stíga fram, segja sína sögu og að vera hjálpa öðrum sem enn eru úti að þjást.

Ef þú vilt horfa og hlusta á viðtalið við Alviu þá getur þú það með áskrift að hlaðvarpsveitunni Brotkast en þar má finna þætti Götustrákana. Hér fyrir neðan er brot úr viðtalinu sem við birtum með góðfúslegu leyfi.

Hvað eru Götustrákar?

Vinirnir Aron Mímir Gylfason og Bjarki Viðarsson eru mennirnir sem standa á bakvið hinn umdeilda hlaðvarpsþátt Götustrákar sem hægt er að nálgast á hlaðvarpsveitunni Brotkast. Aron og Bjarki voru báðir virkir þátttakendur í undirheimum Reykjavíkur þangað til þeir ákváðu að snúa lífi sínu við og eru nú á beinu brautinni, báðir edrú og aðstoða nú aðra við að hætta að nota fíkniefni með aðstoð 12 spora samtaka hér á Íslandi.

„Við viljum með þættinum okkar veita „venjulegu fólki“ innsýn inn í þennan ljóta og miskunnarlausa heim og þá viljum við líka geta aðstoðað fólk, og þá sérstaklega foreldra, hvernig hægt er að koma auga á neyslu barna þeirra, koma í veg fyrir hana eða aðstoða þau. Hægt er að hafa samband við okkur með því að senda tölvupóst á gotustrakar@brotkast.is

Auglýsing

læk

Instagram