1860 fékk dularfullan póst frá umboðsmanni Kanye West, reyndist vera grjótharður aðdáandi

Hlynur Hallgrímsson, meðlimur í hljómsveitinni 1860, deildi ansi skemmtilegri frásögn á Facebook í gær sem við megum til með að deila með ykkur. Við sögu koma umboðsmaður rapparans Kanye West og bandaríski tónlistarmógúllinn Daniel Glass.

Sagan hefst þegar Hlynur opnaði póst sem innihélt aðeins eina setningu: „My name is Izzy. I work with Kanye West. Are you around for a call?“

Hlynur var skiljanlega mjög efins þegar hann opnaði póstinn. „Loddara-skynjarinn minn sprakk næstum því. Umboðsmaður Kanye West heitir nefnilega Izvor „Izzy“ Zivkovic og ég sá alveg fyrir mér að núna væri einhver að nýta sér kúlness hans til að pretta hljómsveitir víðsvegar um heiminn með sniðugu emaili,“ segir hann.

En eftir smá tölvunörda-rannsóknarvinnu þar sem ég fullvissaði mig um að emailið væri í raun að koma frá póstfanginu sem bar fyrir augu mér þá sló ég til og sendi númerið mitt til baka.

Það kom semsagt í ljós að Izvor Zivkovic, umboðsmaður Kanye West, er grjótharður aðdáandi hljómsveitarinnar 1860. Hljómsveitin gaf út plöturnar Sagan í september 2011 og Artificial Daylight í ágúst 2013 og lögin Snæfellesnes, Orðsending að austan og For you Forever hafa öll komist á vinsældarlista á Rás 2, X977 og Bylgjunni.

„Hann heyrði For You, Forever fyrir tilviljun fyrir einhverju síðan, náði í plöturnar okkar og varð að eigin sögn ástfanginn,“ segir Hlynur og bætir við:  „Ég veit, mér líður eins og ég sé að ljúga þegar ég skrifa þetta, en þetta er 100% satt.“

Hlynur segist hafa átt nokkur mjög áhugaverð samtöl við Izzy og að uppúr standi símtal þar sem hann velti upp þeim möguleika að starfa saman í framtíðinni á einhvern hátt.

„Veit ekki alveg hversu líklegt það er, þar sem hann er með einn kúnna og aðeins einn kúnna og sá heitir Kanye West. Á meðan höfum við í 1860 soldið verið með áhersluna á að fjölga mannkyninu meira en að sigra heiminn þessi síðustu misseri,“ segir Hlynur léttur í færslunni.

„Í því símtali sagði hann alveg ótrúlega fallega hluti um tónlistina okkar, sem glöddu mig hreint ólýsanlega mikið en síðan komu einnig fram fáránlegir hlutir eins og það að hann hefði átt samtal við Daniel Glass af öllum mönnum um ágæti sveitarinnar. Mér finnst nógu absúrd að Daniel Glass viti yfir höfuð af tilvist hljómsveitarinnar okkar, hvað þá að honum finnist hún góð.“

Auglýsing

læk

Instagram