4.500 króna tekjur af 11 þúsund spilunum á Spotify

„Skilaboðin sem ég vil koma áleiðis er að við eigum ekki að venjast því að greiða 1.500 krónur á mánuði fyrir tónlistarveituna sem við viljum nota. Það meikar engan sens, það er ódýrara en ein plata,“ segir Haraldur Leví Gunnarsson, útgefandi hjá Record Records í nýjum pistli á Nútímanum.

Í pistlinum ber Haraldur tekjur af plötusölu saman við þær sem fást af spilun á Spotify en Record Records gaf út plötuna Heyrðu mig nú með AmabAdamA fyrir tveimur vikum.

„Salan fer alveg ágætlega af stað; 3. sæti eftir fyrstu viku, það eru ekki óhemjumörg eintök á bakvið það sæti eins og var fyrir nokkrum árum — kannski 150 eintök,“ segir hann. „Á sama tíma hefur platan verið fáanleg á Spotify og er nú búið að streyma henni tæplega 11.000 sinnum, þ.e. 11.000 spilanir á lögum. Það eru 10 lög á plötunni svo þetta gerir 1.100 hlustanir á plötunni.“

Mér finnst frekar raunsætt að gefa mér að á bakvið þessar 1.100 hlustanir séu sirka 140 virkir hlustendur, sem eru búnir að renna plötunni sirka 8 sinnum í gegn. Þessar 11.000 spilanir laga hefur skilað hljómsveitinni AmabAdamA rétt um 4.500 kr. í tekjur. Ef þessir 140 virku hlustendur hefðu farið út í plötubúð og keypt plötuna á föstu formati eins og geisladiski, þá væri sveitin búin að fá um 100 þúsund krónur í tekjur. Þú þarft að hlusta 173 sinnum á plötuna svo að hljómsveitin fái sömu tekjur og ef þú ferð og kaupir geisladiskinn út í búð. Það er fáránlegt! Ég hlusta ekki einusinni 173 sinnum á Nada Surf plöturnar mínar!

Haraldur segir að þetta sé sorgleg staðreynd. „Og leiðinlegt að tónlistarmenn þurfi að sætta sig við svona mikla tekjuminnkun í framtíðinni. Þetta má ekki vara lengi ef við tónlistarunnendur viljum geta grúskað í góðri tónlist!“

Smelltu hér til að lesa pistilinn.

Auglýsing

læk

Instagram