88 þúsund sáu uppistand Ara Eldjárns

Uppistand Ara Eldjárns sló í gegn á RÚV á laugardagskvöld og var langvinsælasti dagskrárliðurinn í íslensku sjónvarpi það kvöld.

27,1 prósent landsmanna á aldrinum 12 til 80 ára sáu uppistand Ara, samkvæmt vikulegri áhorfskönnun Capacent. Íslendingar eru tæplega 326 þúsund samkvæmt Hagstofunni, sem þýðir að um 88 þúsund manns horfðu á Ara í toppformi.

Við eigum eftir að fá nóg af gríni frá Ara Eldjárn á næstunni. Tökur eru nýhafnar á sketsaþáttunum Drekasvæðið, sem verða á dagskrá RÚV í vetur.

Þættirnir eru skrifaðir af Ara, Braga Valdimar Skúlasyni og Guðmundi Pálssyni. Kristófer Dignus leikstýrir en þessi hópur var einnig á bakvið síðasta áramótaskaup, sem þótti afar vel heppnað.

Ásamt höfundunum leika Saga Garðarsdóttir, Hilmar Guðjónsson, María Heba Þorkelsdóttir, Birgitta Birgisdóttir og Nanna Kristín Magnúsdóttir í þáttunum.

Þá snýr uppistandshópurinn Mið-Ísland aftur með nýja sýningu í vetur. Ari Eldjárn, Björn Bragi, Dóri DNA, Jóhann Alfreð og Bergur Ebbi skipa hópinn sem hefur sem hefur grínað með góðum árangri í Þjóðleikhúskjallaranum síðustu ár. Síðasta sýning, Áfram Mið-Ísland, var til að mynda frumsýnd í janúar og gekk óslitið fyrir fullum sal fram á vor.

Eins og Nútíminn greindi frá á dögunum þá leitar hópurinn að staðgengli fyrir Berg Ebba, sem er fluttur til Kanada í nám.

Auglýsing

læk

Instagram