94 ára kona hjólar í stjórnvöld vegna hugmynda um Álver í Skagabyggð

Hin 94 ára gamla Guðríður B. Helgadóttir skrifar kjarnyrta grein í héraðsfréttablaðið Feyki þar sem hún furðar sig á hugmyndum um nýtt álver í Skagabyggð, nálægt Skagaströnd.

Guðríður trúði ekki eigin eyrum þegar hún heyrði af hugmyndunum.

„Vesalings aumingjarnir. Þeim er ekki sjálfrátt.“ Heyrði ég áður sagt um þá sem voru svo heimskir og andlega fatlaðir að þeir komu sér og öðrum, æ ofan í æ, í allskonar vandræði með vanhugsuðum afhöfnum og mistökum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var viðstaddur undirritun viljayfirlýsingar íslensks fyrirtækis og kínversks málmframleiðanda á dögunum um fjármögnun kínverska félagsins á nýju álveri.

Viljayfirlýsingin var af hálfu Klappir Development ehf. og China Nonferrous Metal Industry´s Foreign Engineering and Construction (NFC), sem er í eigu kínverska ríkisins.

Ekki hefur verið útveguð orka fyrir fyrirhugað álver en aðstandendur vilja fá orku úr Blönduvirkjun. Þörf er á stóraukinni orkuframleiðslu til að sinna fyrirliggjandi verksmiðjuhugmyndum.

Guðríður spyr hvar framfarirnar eru, sem fylgja áttu í kjölfar Blönduvirkjunar á þeim tíma uppgangs og atvinnu.

„Hvað um það þó upp rísi önnur Sturlungaöld þar innan héraðs! Hvað um það þó útlendu listamennirnir sem koma til að dvelja tíma og tíma í kyrrðinni á Skagaströnd, komi nú fýluferð og flýi annað. Þeir gátu víst skilið eftir einhverjar vel þegnar krónur og farið út með góða landkynningu, en hvað um það.“

Hún segir að það sé ekki hægt að afsaka stjórnmálamennina eða fyrirgefa þar sem þeir vita vel hvað þeir eru að gera.

„En þeir hafa verið kjörnir af fólkinu til að vera í forsvari fyrir sínar heimabyggðir og bera ábyrgð gagnvart því. Ætlar fólkið að fljóta svo sofandi að feigðarósi að það láti slíkt yfir sig ganga án þess að rumska.“

Hún telur svo upp tækifærin sem henni finnst sveitungar sínir fara á mis við:

„Hvað um ört vaxandi ferðaþjónustu í Skagafirði, ónotaða möguleika í stóriðjuylrækt við heitar uppsprettur víða á þessu svæði, ónotan flugvöll, sem liggur best við til lendingar af öllum stöðum á landinu vegna legu og veðurskilyrða. Sem millilandaflugvöllur gæti hann best þjónað þegar á reynir og einnig tekið við beinum útflutningi á ferskum afurðum landbúnaðar og ylræktar, sem þessi héruð Húnavatns og Skagafjarðar eru kjörin til framleiðslu á. Fegurð þeirra, menningin, skólarnir, landið og miðin, allt lagt upp í hendurnar á fólki sem opin bók. Og það sér ekkert nema álver?!“

Smelltu hér til að lesa pistil Guðríðar.

Auglýsing

læk

Instagram