Æsilegur bílaeltingaleikur starfsmanns IKEA og brennuvarganna endaði á Bústaðavegi

Snör viðbrögð starfsmanns IKEA urðu til þess að brennuvargarnir sem kveiktu í IKEA-geitinni í nótt náðust. Þeir voru þrír á ferð en tveir þeirra gistu fangageymslur. Starfsmaðurinn elti brennuvargana frá Kauptúni og í Grímsbæ, þar sem lögregla náði þeim.

Myndband: Sjáðu IKEA-geitina brenna

Eins og Nútíminn greindi frá í morgun þá var kveikt í IKEA-geitinni í nótt. Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, lýsti aðferðum brennuvargana í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Íkveikjan virðist hafa verið þaulskipulögð en mennirnir voru búnir að skrúfa númeraplöturnar af bílnum til að þekkjast ekki. Geitin er bæði vöktuð af öryggismyndavélum og starfsfólki. Þeir gerðu tvær tilraunir til að henda logandi hlut yfir rafmagnsgirðingu sem er í kringum geitina, án árangurs.

Þórarinn sagði þá svo hafa klifrað yfir rafmagnsgirðinguna, fært brennandi hlutinn og helt meira bensíni á bálið. „Starfsmaður hljóp út um leið og mennirnir komu, upp í bíl með slökkvitæki með sér,“ sagði Þórarinn í Morgunútvarpinu.

Þeir reyna að komast í burtu en hann leggur fyrir þá. Þeir fara þá bara gegn aksturstefnu en hann eltir þá niður í bæ með lögregluna í símanum.  Hans snöru viðbrögð urðu til þess að þessir strákar náðust.

Eftir því sem Nútíminn kemst næst þá náðust brennuvargarnir við Grímsbæ á Bústaðarvegi. Þórarinn sagði í Morgunútvarpinu að IKEA muni leita réttar síns í málinu.

„Auðvitað á þetta að vera eitthvað sport en þetta er ekkert skárra en að mæta eitthvert og kveikja í húsbíl,“ sagði hann.

„Kostnaðurinn við geitina slagar í tvær milljónir. Þetta er okkar jólaskraut og almennt held ég að flestir séu sáttir við þessa geit. Hún er svakalega falleg í skammdeginu og gerir engum neitt. Ég er verulega skúffaður.“

Ekki hefur verið tekið ákvörðun um hvort ný geit verði smíðuð. „Ég ætlaði ekki að gera það en svo er maður er orðinn svo pirraður og reiður, maður vill ekki lúta í gras fyrir þessum mönnum þannig að ég sé til,“ sagði Þórarinn.

Auglýsing

læk

Instagram