Aron Einar staðráðinn í að vera heill fyrir HM: „Var farinn að búa mig undir það versta“

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, er bjartsýnn og ætlar að gera það sem hann þarf að gera til að vera klár í tæka tíð fyrir HM í fótbolta í Rússlandi í sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aroni.

Aron gekkst undir aðgerð á mánudag eftir að hafa orðið fyrir hnémeiðslum síðastliðna helgi. Liðþófi rifnaði í hægra hné Arons og eina úrræðið var að fara rakleiðis í uppskurð. Talsverðar líkur eru taldar á því að Aron verði orðinn nógu heill til að leiða íslenska karlalandsliðið til leiks á HM í Rússlandi.

Sjá einnig: Meiddur Gunnar Nelson býður meiddum Aroni Einari í kaffi

„Tíminn frá því að ég meiddist og fram að því að ég fékk niðurstöður um hversu alvarlegt þetta væri var einhver sá óþægilegasti sem ég hef lifað,“ segir Aron.

Ég var farinn að búa mig undir það versta en sem betur fer þá voru meiðslin ekki jafn slæm og ég óttaðist.

Aron segist vera þakklátur fyrir þann kraft sem settur hefur verið í að meðhöndla sig. „Stjórnendur Cardiff sem og þeir sem starfa hjá íslenska landsliðinu eru búnir að slá í takt undangengna daga og það eru allir að gera sitt besta til að tryggja að ég nái sem skjótustum bata,“ segir hann.

„Aðgerðin á mánudaginn heppnaðist vel og í dag byrjar ferlið þar sem ég vinn mig smám saman aftur af stað. Þetta verður hvorki þægilegt né skemmtilegt, en það breytir mig engu. Ég er bjartsýnn og ég geri bara það sem ég þarf að gera til að vera klár í tæka tíð.“

Ísland mætir Argentínu 16. júní á Okritie Arena leikvanginum í Moskvu og þar ætlar Aron Einar að vera þegar stóra stundin rennur upp. „Ég ætla mér á HM, svo einfalt er það,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram