Ástin kviknaði á uppistandi Mið-Íslands

Par, sem fór á sitt fyrsta stefnumót á uppistandssýningu Mið-Íslands 21. febrúar í fyrra, endurtók leikinn í ár. Þau fögnuðu sem sagt árs sambandsafmæli á sýningunni á laugardaginn og voru leyst út með gjöfum af grínistunum góðkunnu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

„Þetta hitti á nákvæmlega sömu dagsetningu, 21. febrúar, og var ótrúlega gaman,“ segir Björn Bragi Arnarsson í samtali við Fréttablaðið.

Sjá einnig: Joe Rogan með sama grín og Bergur Ebbi

Sýning hans og Ara Eldjárn, Dóra DNA og Jóhanns Alfreðs hefur slegið í gegn. Í vetur hafa þeir fengið Önnu Svövu, Sögu Garðars og Þorstein Guðmundsson til að leysa Berg Ebba af, sem er í námi erlendis, en hann var staddur hér á landi um síðustu helgi og var því með á sýningunum.

Í Fréttablaðinu kemur fram að parið fékk rauðvínsflösku og súkkulaði í tilefni af tímamótunum.

„Við viljum meina að ferð á sýningu hjá okkur sé hið fullkomna stefnumót. Fólk er svo aðlaðandi þegar það hlær og hefur gaman,“ segir Björn í Fréttablaðinu.

Miðasala á sýningarnar fer fram á Miði.is.

Auglýsing

læk

Instagram