Bjóða upp á kristna íhugun í Trúarþreki í World Class, hugmyndin kviknaði í karlaklefanum

Frá og með næsta fimmtudegi geta viðskiptavinir World Class í Laugum tekið þátt í kristinni íhugun í líkamsræktartímum sem hafa fengið nafnið Trúarþrek.

Unnið verður með alla vöðva líkamans en síðustu tíu mínútur tímans fara í teygjur, íhugun og slökun sem verður leidd af sr. Bjarna Karlssyni sem starfar við sálgæslu.

„Við ætlum að leggja upp úr því að þeir sem koma fái fulla hreyfingu en um leið erum við að virkja hugann og sálina á meðan við erum að púla,“ segir Bjarni í samtali við Nútímann.

Hann segir að hugmyndin hafi kviknað í karlaklefanum í Laugum þar sem hann var að spjalla við Björn Leifsson, einn eiganda World Class. „Björn segir, þú veist að World Class er stærsta kirkjan, fólkið kemur hingað og spurði mig hvenær ég ætlaði að messa þar,“ segir Bjarni.

Hann ákvað að taka Björn á orðinu og ræddi málið betur við hann við tækifæri. Úr varð samstarf Bjarna og Sigurbjargar Ágústsdóttur einkaþjálfara.

Í byrjun hvers tíma mun Bjarni leggja inn eitt umhugsunarefni sem fólk á að taka með sér inn í púlið. Í fyrsta tímanum verður þakklæti tekið fyrir en síðar stórar tilfinningar líkt og sorg, gleði og reiði.

„Í lokin, þegar við teygjum, mun ég segja sögu og vera síðan með íhugun og bæn í slökuninni,“ útskýrir Bjarni en um er ræða kristna íhugun.

Bjarni ætlar sjálfur að taka virkan þátt í púlinu. Hann er spenntur að byrja en hefur ekki hugmynd um hver aðsóknin kemur til með að vera.

„Ég er mjög spenntur að sjá hvað gerist, þetta er í eðli sínu eitthvað sem ætti að virka. Ég hef fundið það sjálfur þegar ég er í mínu trimmi, það eru tímarnir þar sem ég íhuga sjálfur,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram