Björn Ingi tjáir sig um kúgunarmálið: Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaupin á DV

Björn Ingi Hrafnsson tjáir sig um kúgunarmálið á Facebook-síðu sinni. Hann segist harmi sleginn yfir fregnum dagsins. „Hugur minn er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa máls,“ segir hann og bætir við:

Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu. Að öðru leyti óska ég eftir því að tekið sé tillit til þess að hér er mannlegur harmleikur á ferðinni og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.

Heimildir Nútímans herma að systurnar hafi í bréfi sínu til Sigmundar sagst vera með gögn sem sýna að forsætisráðherra kom að fjármögnun á hlut Björns Inga í DV.

Pressan ehf. á 69,69% hlut í DV ehf. og Björn Ingi á hluti í Pressunni í gegnum tvö félög, Kringluturninn og AB 11 ehf.

Sjá einnig: Systurnar sögðust geta sannað að forsætisráherra fjármagnaði kaup Björns Inga á DV

Björn Ingi og Hlín áttu í ástarsambandi frá árinu 2011 þar til síðla árs 2014. Tilkynnt var um kaup Björns Inga á DV í nóvember í fyrra en fyrir átti Björn Ingi Vefpressuna sem rekur meðal annars Pressuna, Eyjuna og Bleikt.is.

DV greinir frá því að í lok bréfsins hafi þung áhersla verið lögð á að afleiðingarnar yrðu alvarlegar ef að haft yrði samband við lögreglu.

Samkvæmt heimildum DV var eiginkonu Sigmundar Davíðs mjög brugðið eftir lestur bréfsins sem kann að skýra umfang aðgerðarinnar og þátttöku sérsveitarinnar.

Sjá einnig: Fjárkúgun forsætisráðherra: Atburðarásin eins og í kvikmynd

Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand voru hand­tekn­ar fyr­ir helg­i í tengsl­um við rann­sókn lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu á til­raun til fjár­kúg­un­ar. Kon­urn­ar voru hand­tekn­ar í Hafnar­f­irði um há­deg­is­bil á föstu­dag.

Í tilkynningu frá lögreglunni er atburðarásinni lýst eins og um kvikmynd hafi verið að ræða. Systurnar sendu forsætisráðherra bréf þar sem kraf­ist var að hann greiddi þeim til­tekna fjárupp­hæð.

Enn frem­ur var til­greint að fjár­mun­ina ætti að skilja eft­ir á ákveðnum stað sunn­an Valla­hverf­is í Hafnar­f­irði. Þar hand­tók lög­regla kon­urn­ar.

Við yf­ir­heyrsl­ur játuðu kon­urn­ar að hafa sent um­rætt bréf og var þeim sleppt að yf­ir­heyrsl­um lokn­um.

Í frétt Vísis um málið í morgun kom fram að þær hafi reynt að kúga milljónir út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.

Þá kom fram að þeir hafi sett kröfur sínar fram í bréfi sem barst Sigmundi og fjölskyldu. Þar var þess krafist að þau myndu reiða fram nokkrar milljónir króna ella yrðu upplýsingar sem áttu að vera viðkvæmar fyrir forsætisráðherra gerðar opinberar.

Auglýsing

læk

Instagram