Bubbi og Bó hughreystu Jón Ragnar eftir tapið

Tónlistarmaðurinn og fótboltamaðurinn Jón Ragnar Jónsson var í liði FH sem tapaði fyrir Stjörnunni í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn um síðustu helgi. Tapið var ansi sárt þar sem FH-ingum dugði jafntefli en Ólafur Karl Finsen skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Jón Ragnar leysti Steinda jr. af í útvarpsþættinum FM95Blö í dag. Auðunn Blöndal og Egill Einarsson, sem stýra þættinum ásamt Steinda, spurðu Jón Ragnar út í leikinn í þættinum en hann var skiljanlega ekki kátur.

Jón sagði þó frá skilaboðum sem hann fékk eftir leikinn. Margir vildu eflaust hughreysta hann eftir leikinn en tilviljun réði því að fyrstu tvö skilaboðin komu frá engum öðrum en Bubba Morthens og Björgvin Halldórssyni.

„Það var frekar fyndið að skilaboðin komu frá þeim. Þetta voru svona upp með hausinn, svona er boltinn skilaboð,“ útskýrði Jón Ragnar.

Hann viðurkenndi einnig að hann hefur ekki hugmynd um hvar silfurpeningurinn hans er niðurkominn. „Hann hlýtur að vera einhvers staðar inni í klefa, í töskunni minni eða eitthvað,“ sagði Jón. „En ég vil nota tækifærið og óska Stjörnunni til hamingju með titilinn.“

Auglýsing

læk

Instagram