Dagskrárstjóri Stöðvar 2 minnir Loga á uppsagnarfrestinn: „Hann þarf að sjálfsögðu að virða“

Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson er hættur hjá 365. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Logi hefur verið ráðinn til Árvakurs þar sem hann mun starfa við dagskrárgerð á K100 ásamt því að skrifa í Morgunblaðið. Loks er í undirbúningi framleiðsla á innlendu sjónvarpsefni með Loga sem Árvakur vinnur í samstarfi við Sjónvarp Símans.

Logi hefur um árabil verið eitt af andlitum Stöðvar 2. Hann hefur lesið fréttir ásamt því að stýra þáttum á stöðinni, meðal annars spjallþættinum Logi og Bombunni. Hann hefur áður starfað á Morgunblaðinu en það fyrir 29 árum.

Jóhanna Margrét Gísladóttir, dagskrárstjóri Stöðvar 2, minnir Loga á uppsagnarfrestin í samtali við Vísi. „Hins vegar er ljóst að Logi er með skriflegan tólf mánaða uppsagnarfrest og að auki 12 mánaða samkeppnisákvæði sem hann þarf að sjálfsögðu að virða,“ segir hún.

Í frétt Morgunblaðsins um málið kemur hins vegar fram að ráðning Loga taki gildi strax og að hann hafi þegar hafið störf. Og Logi er spenntur. „Ég er sérstaklega spenntur yfir því að koma aftur heim. Það eru næstum 30 ár síðan ég hóf stöf á blaðinu. Mogginn reyndist mér alltaf mjög vel,“ segir Logi í Morgunblaðinu.

Auglýsing

læk

Instagram