Egill biður konurnar sem hann nafngreindi í pistlum sínum afsökunar: „Hver djöfullinn var að mér?“

Egill Einarsson, útvarpsmaður og einkaþjálfari, biður konur sem hann nafngreindi í grófum pistlum sínum á árunum 2004 til 2007 afsökunar. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Egils.

Pistlarnir komust í umræðuna á ný eftir að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri og alþingiskona, sagðist í Silfrinu á sunnudag hafa setið undir því á árum áður að þekktir nafngreindir menn hvöttu aðra karlmenn til þess að fara heim til hennar og nauðga henni.

Vísir greindi frá því að Steinunn hafi sagt í lokuðum hópi stjórnmálakvenna á Facebook að Ásgeir Davíðsson, best þekktur sem Geiri á Goldfinger, hafi hvatt til þess að „karlar tækju sig saman“ og nauðguðu henni. Steinunn barðist gegn súlustöðum á árum sínum í stjórnmálum.

Í pistli á sínum tíma sagði Egill meðal annars að á Steinunni „dugði ekkert annað en lágmark tveir harðir“ og kallaði hana portkonu. Í viðtali á Vísi árið 2010 hafnaði hann því að úr orðum hans mætti lesa hvatningu til nauðgana. Sama ár baðst hann afsökunar á skrifum sínum.

Í afsökunarbeiðni á Facebook í dag segir Egill að í hvert skipti sem hann sér umræddan pistil þá skammist hann sín. „Ég er ekki stoltur af þessum skrifum. Þetta var líka ekki fyndið, bara gróft og særandi,“ segir hann.

Ég viðurkenni að ég hef oft haft gaman af grófum svörtum húmor, en þetta var ljótt, og ég sé mikið eftir þessu. Ég vil því enn og aftur biðja þessar konur afsökunar sem ég nafngreindi í þessum pistli.

Egill segist ekki vita hvort um einhverja sárabót sé að ræða. „Mér finnst ekkert fyndið við þennan pistil í dag, fæ bara hroll þegar ég sé hann,“ segir hann.

„Þegar ég les gömul skrif þá hristi ég oft hausinn og hugsa, hvað var í gangi? Hver djöfullinn var að mér? Það er kannski jákvætt merki að maður sé búinn að þroskast eitthvað á þessum árum.“

Þegar ég byrjaði að blogga og skrifa pistla þá hafði ég mjög gaman af því að pirra og hneyksla. Ég í raun þreifst á því….

Posted by Egill Einarsson on Þriðjudagur, 5. desember 2017

Auglýsing

læk

Instagram