Eiginmaður konunnar sem lést við Jökulsárlón þegar hjólabátur ók yfir hana lýsir slysinu

Kanadíska fjölskyldan sem ekið var á á hjólabáti við Jökulsárslón í ágúst árið 2015 áttaði sig ekki á að þau væru á einhvers konar hættusvæði. Kona lést í slysinu en sonur hennar og eiginmaður sluppu naumlega. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Aðalmeðferð stendur nú yfir í Héraðsdómi Austurlands í máli gegn starfsmanni Jökulsárlóns ehf. sem er ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Starfsmaðurinn bakkaði hjólabát yfir kanadíska konu á sextugsaldri við Jökulsárlón í ágúst 2015 með þeim afleiðingum að hún lést.

Starfsmaðurinn heldur fram sakleysi sínu, segir að konan hafi sýnt af sér gáleysi, að bakkmyndavél hafi verið biluð og að annar starfsmaður hafi ekki varað hann við. Þá hafi eftirliti verið ábótavant.

Vísir greinir frá vitnisburði eiginmanns konunnar í héraðsdómi í dag. Hann sagðist hafa náð að forða sjálfum sér naumlega undan bátnum sem rakst einnig utan í son þeirra. Fjölskyldan var að bíða eftir að komast um borð í þyrlu þegar slysið varð.

Maðurinn lýsti því hvernig hann lá á bakinu og hafi náð að snúa sér þannig að bátnum var ekið framhjá honum. „Konan mín lá á maganum og beint fyrir aftan dekkið sem fór svo yfir hana. Síðustu orð hennar voru: „Hvað er að gerast? Guð minn góður“ og svo fór dekkið yfir hana. Hún lést samstundis,“ sagði hann.

Aðalmeðferð heldur áfram í vikunni.

Auglýsing

læk

Instagram