Eins og Elliði Vignisson viti ekki að ég sé til

Pistlar Hrafns Jónssonar kvikmyndagerðarmanns á vef Kjarnans hafa vakið mikla athygli. Hrafn rekur atburðarás síðustu daga snilldarlega í nýjasta pistli sínum sem birtist í dag.

Viðbrögðin við pistlum Hrafns hafa verið svakaleg og hefur hann verið kallaður besti pistlahöfundur landsins. En ætli Hrafn finni sjálfur fyrir þessum viðbrögðum og hefur verið þrýst á hann að taka þetta lengra — skrifa bók? flytja ræður? fara í pólitík? skora á Sigmund Davíð í sjómann? Nútíminn hafði upp á manninum.

„Það er alveg gríðarlega gaman að heyra að fólk bregðist við því sem maður skrifar — sérstaklega þegar það er jákvætt en líka þegar það er neikvætt. Reyndar fæ ég mest að heyra neikvætt að ég sé helst til of dónalegur en það er kannski allt í lagi svo lengi sem mömmu blöskrar ekki,“ segir Hrafn.

Hann játar að ýmsar hugmyndir um bókaskrif hafi komið upp en segir það ekki liggja beint fyrir sér. „Svona í ljósi þess að minn prósi er pínulítið eins og texti skrifaður við lagið Stress með Justice. Gott í eitt, tvö skipti í einu en fólk myndi örmagnast ef það þyrfti að hlusta á það í margar klukkustundir samfleytt.“

Svo grunar mig að ég sé of kjaftfor og leiðinlegur fyrir pólitík — og allt of sjúkur af viðurkenningarfíkn. Myndi enda með ósköpum. Ég hefði kannski lagt í sjómann við Sigmund Davíð þangað til að ég frétti að hann væri kominn í þjálfun til Everts Víglundssonar — sem er líklega einn vígalegasti maður á Íslandi. Efast ekki um að hæstvirtur forsætisráðherra mundi rífa af mér höndina eins og Sylverster Stallone í Over the Top.

En hvað með neikvæðu viðbrögðin? Þú nærð augljóslega til margra með skrifum þínum. Hafa viðbrögð þeirra sem styðja ríkisstjórnina gefið þér ástæðu til að telja að þar sé litið á þig sem einhvers konar ógn? Óvin nr. 1?

„Alls ekki! Sem er í rauninni óþolandi. Ég hef ekki fengið einn haturspóst og það er eins og Elliði Vignisson viti ekki einu sinni að ég sé til, sem að særir mig inn að rótum en gerir mig einnig forhertari og erfiðari í skrifum eins og vandræðaunglingur að reyna að ná sambandi við fjarrænan föður með því að fá sér tunnel í eyrað og reykja Camel.

Ég er að vona að ástæðan sé að hæðnistónninn í skrifunum afvopni kannski þá sem efnislega eru ósammála – og sú staðreynd að þetta birtist í dálki sem skammarlaust kallar sig Kjaftæði. Það nennir enginn að eyða orku í að garga á hirðfíflið. Það mundi samt gefa mér mikið ef þeir sýndu því samt smá viðleitni.“

Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram