Eydís gerði crossfit-æfingu í slökkviliðsgalla: „Aldrei svitnað jafn mikið“

Eydís Sigurgeirsdóttir, sumarstarfsmaður á Akureyrarflugvelli, hefur aldrei svitnað jafn mikið á stuttum tíma og þegar hún tók crossfit-æfingu í slökkviliðsgalla.

Yfirmaður hennar tók æfinguna upp á myndband en þegar þær ætluðu að horfa á hana kom í ljós að hún hafði gleymt að stilla á upptöku og þurfti Eydís þá að fara í gegnum hana aftur. Sjáðu myndbandið hér fyrir ofan en það var birt á Facebook-síðu Akureyrarflugvallar.

„Yfirmaður minn, Hjördís Þórhallsdóttir flugvallarstjóri Isavia á Akureyri, sá myndband á Instagram þar sem stelpa var að gera æfingu í slökkviliðsgalla. Hún spurði mig hvort ég væri ekki til í að gera einhverjar æfingar og stakk upp á því að við myndum gera svipað myndband fyrir Akureyrarflugvöll. Ég var auðvitað til í það, setti saman æfingu og skellti mér í gallann,“ segir Eydís.

Hún segir að það hafi verið ógeðslega erfitt að framkvæma æfinguna í gallanum. „Ég held að ég hafi aldrei svitnað jafn mikið á eins stuttum tíma. Þetta er líka ekki beint liprasta dressið til að framkvæma svona æfingar í,“ segir Eydís.

Stígvelín eru líka heldur of stór á hana og það var ekki til að auðvelda leikinn. Buxurnar, jakkinn og stígvélin vega hátt í fimmtán kíló.

Eydís segir að það erfiðasta við æfinguna hafi verið hitinn. „Gallinn er svo hlýr og um leið og ég byrjaði að hita upp var ég orðin rennandi sveitt,“ segir hún.

En þá hugsar maður til slökkviliðsmanna sem þurfa oft á tíðum að vera í gallanum tímunum saman í kringum eld.

„En snörunin var líka erfið því gallinn er svo stífur og það er ekkert hlaupið að því að gera hnébeygju og hvað þá snörun. Hlaupið inn og upp stigann var mjög erfitt því stígvélin eru alltof stór. Svo var ég líka á annarri æfingu fyrr um daginn og var nokkuð þreytt fyrir,“ segir Eydís.

„Það fyndasta við þetta er samt að þegar ég var búin með æfinguna og við ætluðum að skoða myndbandið þá hafði yfirmaður minn gleymt að ýta á upptöku og óvart bara tekið mynd svo ég þurfti að gera alla æfinguna aftur í gegn. Það er samt bara fyndið eftir á og þá fékk ég líka bara meiri æfingu út úr þessu sem er alltaf jákvætt.“

Starf Eydísar felst aðallega í slökkviliðs- og björgunarstarfi og þarf hún ásamt fleirum að vera tilbúin ef eitthvað kemur upp á.

Auglýsing

læk

Instagram