Eyþór ætlaði að setjast í sæti Katrínar Jakobsdóttur á fundinum umdeilda í Höfða

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, ætlaði að setjast í stól Katrínar Jakobsdóttur á fundi borgarstjórnar og þingmanna Reykjavíkur á mánudag. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá vísaði borgarstjóri Eyþóri af fundinum, sem var ekki ætlaður frambjóðendum. Þrátt fyrir að vera hvorki þingmaður né borgarfulltrúi fannst Eyþóri furðulegt að fá ekki að sitja fundinn og sagði í samtali við Fréttablaðið að þetta væri mjög óvenjulegt. „Alls staðar sem ég kem þá taka forstöðumenn stofnana vel á móti mér,“ sagði hann.

Dagur segir í pistli sínum á Facebook að Morgunblaðið hafi afbakað það sem átti sér þarna stað en í Staksteinum blaðsins í dag er framganga Dags sögðu óvenjuleg. Dagur segir að fundurinn hafi verið boðaður samkvæmt hefð að höfðu samráði við utanríkisráðherra og forsætisráðherra.

„Í fundarboði kom skýrt fram að um hefðbundinn fund þingmanna Reykjavíkur og borgarfulltrúa í kjördæmaviku væri að ræða. Mér kom því á óvart að Eyþór Arnalds verðandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn skyldi koma til fundarins,“ segir hann.

„Ég heilsaði honum í andyri hússins og sagði honum hvernig í málinu lagi, fundurinn væri fyrir borgarstjórn og þingmenn en frambjóðendur hefðu ekki verið boðaðir. Ekkert fór á milli mála í þessum samskiptum.“

Dagur lýsir því svo að Eyþór hafi ekki látið segjast og ætlað að sitja fundinn. „Þess var beðið í nokkrar mínútur að allir fundarmenn skiluðu sér og þegar forsætisráðherra var komin í hús bauð ég fundargestum að setjast við langborð,“ segir Dagur.

„Ég sat fyrir miðju borðsins öðrum meginn með Halldór Halldórsson oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn við hlið mér, en Guðlaug Þór utanríkisráðherra á móti mér. Þá brá svo við Eyþór gengur í salinn og býst til að setjast í auða sætið við hlið Guðlaugs, sem ætlað hafði verið fyrir forsætisráðherra.“

Dagur segist hafa gert athugasemd við það og ítrekað hverjum var boðið að sitja fundinn. Þá bætti hann við að hann væri viss um að Vigdís Hauksdóttir hefði líka verið til í að sitja fundinn en hann hefði ekki verið ætlaður frambjóðendum.

„Ef áhugi væri á slíkum fundi þyrfti að boða hann sérstaklega. Eyþór vék við svo búið af fundinum, forsætisráðherra tók sæti sitt en utanríkisráðherra upplýsti að hann hefði boðið Eyþóri. Voru ekki höfð uppi mikið fleiri orð um þetta atvik þótt sérstakt hafi verið,“ segir Dagur.

Auglýsing

læk

Instagram