Furða sig á því að Gummi Ben sé ekki tilnefndur til Eddunnar: „Það er eiginlega alveg óskiljanlegt“

Fjölmiðlamennirnir Egill Helgason og Þorsteinn Joð furða sig á því að fótboltalýsandinn Guðmundur Benediktsson, betur þekktur sem Gummi Ben, hafi ekki verið tilnefndur til Edduverðlauna sem sjónvarpsmaður ársins á Íslandi. Tilnefningar til Edduverðlauna voru kynntar í gær.

Egill Helgason segir í pistli á Eyjunni að erfitt sé að verðlauna fólk á hverju ári í þessum örsmáa kvikmynda- og sjónvarpsbransa hér á landi. „Íslendingar eignuðust á síðasta ári fyrstu alþjóðlegu sjónvarpsstjörnuna. Þeim hefur ekki verið til að dreifa hingað til,“ skrifar Egill.

Gummi Ben lýsti öllum leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á Evrópumótinu í sumar og fór á kostum. Hann sigraði hug og hjörtu Íslendinga og vakti heimsathygli með tilfinningaþrungnum lýsingum sínum á leikjum Íslands. Gummi hefur síðan þá verið tíður gestur í þekktum sjónvarpsþáttum erlendis ásamt því að milljónir hafa hlustað á lýsingar hans á internetinu.

„Þetta er hinn frábæri knattleikjalýsandi Guðmundur Benediktsson. Efni með honum var spilað í sjónvarpi út um alla heimsbyggðina, en hann er ekki tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt. Í hvaða heimi lifa þeir sem yfirsést hann?“ skrifar Egill í pistlinum.

Þorsteinn Joð vann náið með Gumma í kringum Evrópumótið í sumar. Hann lýsir einnig furðu sinni á því að Gummi væri ekki tilnefndur til Edduverðlauna á Twitter.

Þau sem tilnefnd eru sem sjónvarpsmaður ársins eru Ævar Þór Benediktsson, Andri Freyr Hilmarsson, Brynja Þorgeirsdóttir, Helgi Seljan og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir.

Fáum úr þessu skorið

Sjónvarpsmaður ársins?

Auglýsing

læk

Instagram