Grindvíkingar segja þolinmæðina á þrotum: „Ég hallast að þeirri skoðun að það sé verið að draga okkur á asnaeyrum“

Á meðan flestir fjölmiðlar beina nú sjónum sínum að komandi forsetakosningum þann 1. júní þá hefur lítið heyrst úr herbúðum ríkisstjórnarinnar hvað varðar málefni Grindvíkinga. Það er að minnsta kosti tilfinning þeirra sem þar eiga heima en fjölmargir þeirra hafa látið í ljós óánægju sína með gang mála á samfélagsmiðlum.

„Þessi afsökun er búin að vera viðvarandi í tvær vikur og farin að verða þreytt.”

„Hvað er að frétta af Þórkötlu? Ekkert? Öllum sama? Einu svörin eru „Erum að vinna í þessu.“ Grindvíkingar eru meira og minna að brenna inni og það er ekki rætt lengur. Við erum ekki í tísku lengur, fjölmiðlar tala mestmegnis um hvaða Pétur og Páll á og er að fara í forsetaframboð og á meðan eru stjórnvöld í stólaleik af því að Kötu langar að verða að forseta. Ég er alveg kominn með upp í kok!“ segir Björn sem hóf umræðuna í hópi íbúa í Grindavík og fékk stöðuuppfærsla hans töluverðar undirtektir.

Óvinsæll forsetaframbjóðandi

Björn þessi segir að Katrín Jakobsdóttir fái að minnsta kosti ekki atkvæðið hans og þá segist hann ekki geta ímyndað sér að margir úr Grindavík geri það yfir höfuð. Hann er kominn með nóg af aðgerðarleysi og miðað við undirtektirnar þá er þolinmæði fleiri íbúa á þrotum.

Á þriðjudaginn kom fréttatilkynning frá Þórkötlu, félaginu sem var stofnað utan um uppkaup ríkisins á eignum í Grindavík, að kaup félagsins á íbúðarhúsnæði í bæjarfélaginu muni hefjast í þessari viku. Í dag er föstudagur og eftir því sem Nútíminn kemst næst er ekki búið að klára einn kaupsamning. Stafrænum lausnum er þar kennt um en það er afsökun sem einhverjir íbúar Grindavíkur kaupa bara ekki.

Computer says no?

„Ég hallast að þeirri skoðun að það sé verið að draga okkur á asnaeyrum. Ég kaupi ekki þá afsökun að það sé einhver vandi með rafrænar lausnir. Ég hef verið að fá send til mín rafræn skjöl til undirritunar bæði frá fatseignasölunni sem er með í sölu íbúðina sem ég er með samþykkt kauptilboð í og frá Landsbankanum. Þessi afsökun er búin að vera viðvarandi í tvær vikur og farin að verða þreytt. Mér verður hugsað til þeirra sem ,sem unnu að viðgerðinni á vatnslögninni til suðurnesja fyrr í vetur sem unnu þrekvirki við vonlausar aðstæður við viðgerð og luku henni á mettíma. Ég er farin að halda að ætlunin sé að skemma fyrir okkur íbúðakaup með það að markmiði að koma okkur heim aftur í Grindavík,“ segir Þórey.

En það er ekki bara stafrænar lausnir og Þórkatla sem er að gera íbúum lífið leitt því ofan á það bætist stimpilgjald sem allir fasteignaeigendur í Grindavík neyðast til þess að greiða af nýrri eign og svo sú staðreynd að þeir fái bara greitt 95% af brunabótamati eignarinnar. Elísabet segir þau hjónin hafa þurft að greiða hátt í eina milljón í stimpilgjöld af nýju fasteigninni.

Dýr stimpilgjöld

„Það er enginn að tala um óánægju með lögin heldur er verið að tala um samskipta leysi og sömu „ekki“ svörin og endalausar tafir á framkvæmd Þórkötlu svo ekki sé minnst á að þurfa að borga stimpilgjald af nýrri eign sem við neyðumst til að kaupa. Bara stimpilgjald hjá okkur hjónum var hátt í ein milljón. En ef þú ert svona sátt þá samgleðst ég með þér í því 💙💛 og enginn er tilneyddur til að taka þátt ef að grindvíkingar reyna að standa saman og sýna óánægju sína,“ skrifar Elísabet og líkt og aðrir sem létu í ljós óánægju sína þá fá skrif hennar töluverðar undirtektir.

Auglýsing

læk

Instagram