Hakkarar dreifðu óviðeigandi efni í nafni Anníear

Tölvuþrjótar hökkuðu sig inn á Facebook-síðu Anníear Mistar Þórisdóttur í vikunni. Óviðeigandi efni og ruslpóstum var dreift í sólarhring.

„Ég skil ekki hvað fólk fær út úr því að gera þetta en sumir hafa of mikinn frítíma,“ sagði crossfit-hetjan Anníe Mist á Instagram-síðu sinni í vikunni.

Tölvuþrjótarnir brutust inn á Facebook-aðgang hennar á mánudag og hófu strax að dreifa óviðeigandi efni í nafni hennar. Síðan var í kjölfarið gerð óvirk en var komin upp aftur á miðvikudag.

Í skilaboðum til tæplega 130 þúsund aðdáenda sinna baðst hún afsökunar á efninu sem tölvuþrjótarnir dreifðu en þakkaði um leið netverjum fyrir veitta hjálp.

Anníe virtist þó pollróleg yfir þessu öllu á meðan viðgerð á síðunni stóð yfir og endaði skilaboðin til aðdáenda sinna á orðunum: „Þriggja kílómetra hlaupapróf næst á dagskrá. Mmm.“

Auglýsing

læk

Instagram