Hallgrímur um Guðberg: „Ég vona að ég endi ekki sem svona biturt gamalmenni og öfundsjúkt“

Pistill Guðbergs Bergssonar á vef DV í dag hefur vakið mikla athygli. Þar hæðist hann meðal annars af Hallgrími Helgasyni, sem sagði í viðtali í Fréttatímanum um síðustu helgi frá því þegar honum var nauðgað af ókunnugum manni þegar hann var 22 ára gamall nemi í Listaakademíunni í München.

Hallgrímur Helgason var gestur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag og ummæli Guðbergs, sem má lesa hér fyrir neðan voru lesin fyrir hann. „Þetta er svakalegt. Ég get eiginlega ekki tjáð mig um þetta,“ sagði Hallgrímur.

En ég vona að ég endi ekki sem svona biturt gamalmenni og öfundsjúkt. Það er kannski liður í því að opna mig út með gamla og erfiða hluti. Það er kannski liður í því að verða ekki bitur.

Guðbergur skrifaði eftirfarandi um Hallgrím í pistli sínum:

„Nú kemur hver stórfréttin á fætur annarri í jólabókaflóðinu: Hallgrími Helgasyni rithöfundi kvað hafa verið nauðgað, í nýrri bók, með þeim afleiðingum að við samningu hennar hafi einskonar sveskjusteinn (kannski í líkingu við steinbarn Laxness?) gengið niður af honum úr sálinni eða földu móðurlífi í einskonar hommaskáp í skrokknum. Hallgrímur er engin ljósmyndafæla heldur það sem í útlöndum er kallað myndatottari, svo þjóðin hefur drukkið í sig útlit hans. Þess vegna sagði kvikindi: Hvaða kynvillingur hefur haft svona slæman smekk? Hefði ekki verið eins gott að fara upp á marglyttu og að fást við saklausa þjóhnappa hans?

Líklega mun hið sanna seint koma í ljós. Til þess þyrfti skáldið, að eigin sögn, að skrifa þúsund blaðsíðna bók með brennandi efni við 1000 gráðu skapandi hita. En þjóðin með sína heimsfrægu samúð spyr: Hví kærir maðurinn þetta ekki? Það er ekki of seint. Honum yrði tekið opnum örmum í Konukoti þar sem hann gæti „unnið í sjálfum sér“ eins og margir og margar til að endurfæðast síðan með „miklum létti“.“

Auglýsing

læk

Instagram