Handritið að áramótaskaupinu er tilbúið og nú má ekkert fyndið gerast á þessu ári

Handritið að áramótaskaupinu var klárað fyrir helgi og áætlað er að tökur hefjist í næstu viku. Þetta sagði leikkonan Dóra Jóhannsdóttir, yfirhandritshöfundur skaupsins, í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 á föstudaginn.

Sjá einnig: Magnús Magnus Magnússon opnar sig um skaupið: „Heiður þrátt fyrir að vera túlkaður sem þjóðarskömm“

Ásamt Dóru í handritshöfundateyminu eru Anna Svava Knútsdóttir, Saga Garðarsdóttir, Dóri DNA og Bergur Ebbi Benediktsson. Arnór Pálmi Arnórsson leikstýrir en hann leikstýrði einnig gamanþáttunum Ligeglad.

Dóra sagði í Síðdegisútvarpinu að fundir hópsins hafi ekki verið lausir við átök þó þeir hafi verið skemmtilegir. „Það er alveg rifist út af gríni,“ sagði hún.

En sumt sem stóð kannski hæst er núll fyndið. Vil ekki nefna dæmi, en það er sumt sem er alveg, „Ókei ég vil tækla þetta, en það er bara of myrkt.“ Þetta er erfitt en við reynum við allt. Tilfinningin hjá okkur er mjög góð og við erum sátt við verkið.

Árið hefur verið ansi viðburðaríkt og athygli vekur að nú þegar búið er að skila handritinu á enn eftir að mynda ríkisstjórn. Það gæti gerst á næstu dögum þannig að það er eins gott að þetta verði ekki fyndin ríkisstjórn.

„Við getum breytt setningu og setningu hér og þar, en það mega ekki verða algjörir viðsnúningar. Vonandi að fólk hagi sér bara og geri ekkert mjög fáránlegt eða fyndið, verði bara kurteist heima hjá sér,“ sagði Dóra í Síðdegisútvarpinu.

Auglýsing

læk

Instagram