Ingólfur gagnrýnir kerfið í mögnuðum pistli: „Hvernig getur verið opnunartími á geðdeild?“

Pistill sem fótboltamaðurinn Ingólfur Sigurðsson birtir í Fréttablaðinu í dag hefur vakið gríðarlega athygli. Ingólfur beinir orðum sínum til ungra karlmanna sem vilja deyja en sjálfsvígstíðni á Íslandi er ein sú hæsta í Evrópu.

Tveir karlmenn sviptu sig lífi á geðdeild Landspítalans í ágúst. Þeir voru báðir á þrítugsaldri. Ingólfur hefur talað opinberlega um þunglyndi sitt og kvíðaröskun. Í pistli sínum segist hann vita að það sé freistandi að láta sig hverfa. „Að kveðja fyrir fullt og allt, loka dyrunum hljóðlega á eftir sér, með hag allra í kringum sig í forgrunni,“ skrifar hann.

„Það er eins og allir séu komnir með nóg af manni, vanlíðaninni, af veseninu sem fylgir, þetta er svo fjandi erfitt. Það er búið að tala við þig klukkustundunum saman á rólegum nótum, þér leið kannski betur á meðan því stóð, en vanlíðanin jókst enn frekar þegar stundargleðin leið hjá, og ég veit að fólkið í kringum þig hefur eflaust grátið, blótað, öskrað og ekki vitað í hvorn fótinn skuli stíga gagnvart þér. En þú ert ekki einn.“

Ingólfur segir í pistli sínum að fólki líði stundum eins og hjálpin sem fáist snúist upp í andhverfu sína. „Manni líður bara verr fyrir vikið, eins og strá salti á sárið, enn önnur áminningin um skilningsleysið sem maður býr við. Þú verður stundum fyrir fordómum, án þess að manneskjan sem beitir þeim átti sig endilega á því, og það er fjandi fúlt,“ segir hann.

Ingólfur segir að meðferðarúrræðin sem eru í boði séu djók og nefnir sem dæmi að tími hjá sálfræðingi kosti 12 þúsund krónur. „Geðsvið Landspítalans er djók. Ekki fólkið sem vinnur þar, alls ekki, en kerfið. Hvernig getur verið opnunartími á geðdeild? Að vera synjað um hjálp, bent á að fara niður á Landspítalann í Fossvogi. Þvílíka niðurlægingin.“

Ingólfur beinir til ungra karlmanna sem glíma við sjálfsvígshugsanir að þeir séu ekki einir. „Ekki í eina sekúndu. Ég er með þér í liði. Ég dæmi þig ekki í eina sekúndu. Ég bakka þig upp, alla leið. Ef þú bakkar mig upp. Við eigum líka miklu fleiri liðsfélaga en okkur óraði nokkurn tímann fyrir. Það eru þúsundir ungra karlmanna á Íslandi. Mörghundruð þeirra þekkja þær hörmungar sem við höfum gengið í gegnum og það eru enn fleiri hundruðir sem munu þurfa að upplifa það sem við höfum gengið í gegnum. Við verðum að berjast hvor fyrir annan. Ef þú berst fyrir mig, þá berst ég fyrir þig. Ég tóri fyrir þig, ef þú tórir fyrir mig. Við erum merktir sama liðinu, við erum allir liðsfélagar, og hvað sem bjátar á, þá skulum við standa uppi sem sigurvegarar.“

Smelltu hér til að lesa pistil Ingólfs.

Auglýsing

læk

Instagram