Innri barátta Vilhelms Neto, hálfur Íslendingur og hálfur Portúgali og þjóðirnar mætast á EM

Ísland mætir Portúgal á þriðjudag í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu í fótbolta sem hefst á morgun. 

Vilhelm Þór Neto er hálfur Portúgali og hálfur Íslendingur og veit ekki sitt rjúkandi ráð enda þarf hann að taka erfiða ákvörðun: Með hverjum á hann að halda?

Vilhelm ólst upp í Portúgal en flutti hingað til lands 13 ára gamall. Hann hefur myndað tengsl við Portúgalska liðið og reynt að fylgja þeirri reglu að halda með Portúgal í fótbolta en Íslandi í handbolta. Í samtali við Nútímann segir hann að þessar aðstæður fari ekki vel í hann, enda stressaður maður að eðlisfari og erfitt að halda með tveimur liðum.

Hann segist ekki ætla að horfa á sportbar eða á Ingólfstorgi sem kallast EM-torgið á meðan mótið stendur yfir. Ástæðan er mjög einföld: „Ég bara get það ekki, portúgalska blóðið í mér gerir það að verkum að ég verð mjög æstur,“ segir hann.

Ég mun væntanlega fagna ef Portúgal skorar og það er ekki vel séð. Ég fór á síðasta leik Íslands og Portúgals og þegar ég fagnaði marki Portúgals var rusli hent í mig. Þá áttaði ég mig á því að þetta væri ekki alveg málið.

Vilhelm þurfti að fara í gegnum mikla sjálfsskoðun til að ákveða hvort hann ætlar að halda með Portúgal eða Íslandi. Eftir mikla innri baráttu komst hann að þeirri niðurstöðu að innst inni heldur hann með Portúgal. Hann vonast til að verða ekki grýttur úti á götu fyrir það. „Mér líður ekki vel,“ segir hann.

Vilhelm á góða vini og óttast sem betur fer ekki vinamissi sökum þessara sérstöku aðstæðna, þó einhver rifrildi komi eflaust upp af og til. Hann finnur hins vegar fyrir mikilli pressu enda er staðan mjög óþægileg.

Hann er óviss um úrslit leiksins á þriðjudaginn, enda bæði liðin sterk. 

„Ég er ekki viss um hvernig fer en þetta verður vonandi spennandi.“

Auglýsing

læk

Instagram