Klár með nafn ef menn vilja erlendan leikmann í landsliðið

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta tryggði sér sæti á Evrópumótinu í körfubolta á dögunum. Mótið fer fram í fjórum löndum. Riðlarnir fjórir verða haldnir í Þýskalandi, Frakklandi, Lettlandi og Króatíu. Úrslitin verða svo spiluð í Frakklandi. Ekki er enn vitað í hvaða riðli Ísland spilar en það kemur ekki í ljós fyrr en eftir áramót.

Jón Arnór Stefánsson, einn besti körfuboltamaður landsins, er opinn fyrir því að fá erlendan leikmann í liðið fyrir EM. Þetta kemur fram í Hisminu í hlaðvarpi Kjarnans. Jón Arnór segir:

Það hafa fjölmargir leikmenn fengið vegabréf í gegnum tíðina en enginn sem við getum notað í dag. Ég er klár með nafn ef að menn eru til í að skoða það. Ég skil það vel að þetta er flókið ferli. Ég er alveg hlynntur því að fá einn mann inn. Einhverja skepnu undir körfuna með Hlyni og Ragnari.

Í spjallinu kemur einnig fram að hann leiti nú að rétta liðinu til að spila með á næsta tímabili. „Ég er samningslaus og eiginlega öll lið að verða kjaftfull. Ég hef verið mjög pikkí — vil halda ákveðnum launum og spila fyrir góð lið. Ég ætla til Bandaríkjanna í vikunni að æfa. Halda mér í formi þegar kallið kemur, ef það kemur,“ segir Jón Arnór.

Jón Arnór segist eiga um tvö ár eftir af atvinnumennskunni en ferlinum ætlar hann að ljúka með því að spila á Íslandi.

Auglýsing

læk

Instagram