Lögreglan sendir frá sér nýja mynd af Artur úr öryggismyndavél í miðborginni

Lögreglan hefur sent frá sér nýja mynd af Artur Jarmonszko, 25 ára pólskum karlmanni sem síðast sást til að kvöldi 28. febrúar. Myndin er úr eftirlitsmyndavél í miðborginni og er frá þriðjudagskvöldinu 28. febrúar.

Eins og Nútíminn greindi frá í dag hefur Artur ekki notað greiðslukort sitt á þeim tíu dögum sem hans hefur verið saknað. Þá er einnig slökkt á síma hans.

Sjá einnig: Artur hefur ekki notað greiðslukortið sitt í tíu daga og er með slökkt á símanum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti í gær eftir Arturi. Fjölskylda hans hafði samband við lögreglu miðvikudaginn 8. mars en tilkynnti formlega um hvarf hans daginn eftir.

Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að síðast væri vitað um ferðir hans í miðborg Reykjavíkur. mbl.is greindi frá því að sést hefði til hans á öryggismyndavélum í Lækjargötu en þá var hann einn á gangi.

Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir í samtali við Nútímann að rannsókn lögreglu á greiðslukortaupplýsingum Arturs hafi leitt til þess að myndir fundust af honum í öryggismyndavélum. Hann notaði greiðslukort sitt skömmu áður en hann sést á gangi á Lækjargötu að kvöldi 28. febrúar, skömmu fyrir miðnætti.

Eins og staðan er núna hefur lögregla ekki ástæðu til að ætla að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Rannsókn lögreglu er ekki langt á veg kominn og segir Guðmundur Páll að mikill kraftur sé settur í hana.

Engar vísbendingar hafa borist eftir að lýst var eftir Arturi og þá hafa ekki fundist vísbendingar við leit í tölvu hans eða öðru sem tengist honum. Ekki liggur fyrir hvort Artur hafi áður horfið í lengri eða skemmri tíma.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Auglýsing

læk

Instagram