Maðurinn var heima ásamt konu sinni og nýfæddu barni þeirra, bíl ekið yfir fætur hans í hrottalegri árás

Maðurinn sem lést eftir hrottalega líkamsárás við Æsustaði í Mosfellsdal í gærkvöldi var á heimili sínu með konu sinni og nýfæddu barni þegar árásarmennirnir bönkuðu upp á. Vísir segist hafa heimildir fyrir þessu en talið er að málið tengist handrukkun.

Kona mannsins fór til dyra en fólkið óskaði eftir því að fá að ræða við mann hennar. Vísir segir að í framhaldinu hafi fólkið ráðist á manninn með járnkylfum, tekið hann hálstaki, sett hendur hans fyrir aftan bak og látið högg dynja á honum. Þá hafa vitni lýst því að amerískum pallbíl, sem lögregla fjarlægði síðar af vettvangi, hafi verið ekið yfir fætur mannsins. Einn þeirra sem er í haldi lögreglu er æskuvinur mannsins.

Sex manns, fimm karlmenn og ein kona, eru enn í haldi lögreglu eftir manndráp í Mosfellsbæ í gærkvöldi, líkt og kemur fram á mbl.is. Ráðist var á karlmann á fertugsaldri við bæinn Æsustaði um kvöldmatarleytið með þeim afleiðingum að hann lét lífið.

Fólkið sem er í haldi lögreglu var yfirheyrt í nótt og fram undir morgun en nú er unnið að því að fara yfir framburði þess og raða saman atburðarrásinni. Eftir það verður ákveðið hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir fólkinu.

Auglýsing

læk

Instagram