Maggi Peran Snappar í Hollandi: Stuðningsmenn sem ramba inn í Rauða hverfið fá rauða spjaldið

Holland og Ísland mætast í undankeppni EM karlalandsliða fimmtudaginn 3. september. Magnús Guðmundsson, best þekktur sem Maggi Peran, sló í gegn á Snapchat Fótbolta.net á dögunum og verður með símann á lofti í Hollandi.

Í viðtali við Nútímann á dögunum kallaði Maggi eftir því að eitthvað fyrirtæki myndi styrkja för hans til Hollands. Viðbrögðin stóðu ekki á sér.

Eftir fréttina ykkar höfðu Nova-menn samband við mig og spurðu hvort ég væri ekki til í að vera með Snappið þeirra (novaisland) í Hollandi. Ég fer með Gamanferðum og fæ að drekka í mig hollenska menningu í þrjá daga.

Maggi lofar því að Peruvaktin verði lífleg og fjörug allan tímann og lofar stanslausri gleði.

„Mitt fyrsta embættisverk í Hollandi verður að finna mér tréklossa og túlipana og alvöru fótboltabullubar. Svo mun ég taka hús á Tólfunni, snappa stuðningsmannastemninguna og reyna hvað ég get að gefa aðdáendum Novasnappsins innsýn í gleðina þar ytra,“ segir hann.

„Gunnar Jarl Jónsson hinn skeleggi dómari verður í landinu og ætlar að gæta þess að allt fari eðlilega fram. Við verðum klárir með spjöldin við Rauða hverfið ef einhver íslenski stuðningsmaðurinn rambar óvart þangað.“

Sjá einnig: Hver er Maggi Peran? Ótrúlegt lífshlaup óvæntustu Snapchat-stjörnu landsins

Maggi segist eiga ærið verkefni fyrir höndum í Hollandi.

„Þetta er einn mikilvægasti leikur íslensks karlalandsliðs og ef að Lars verður ekki erfiður þá ætla ég líka að reyna að ná Snappa eitthvað af liðinu sjálfu,“ segir hann.

„Henson er að manna aukavaktir sem fara í það að sauma utan um belginn á mér sérstaka leiktreyju sem verður blanda af búningnum beggja liða.“

Auglýsing

læk

Instagram