Mikill munur á viðbrögðum Bjarna og Sigmundar

Mikill munur er á viðbrögðum formanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við ummælum flokksmanna sinna við því sem mætti túlka sem andúð á innflytjendum.

Bjarni Benediktsson var fljótur að bregðast við ummælum Ásmundar Friðrikssonar í vikunni og ítrekaði að þau væru ekki í takt við stefnu flokksins. Þegar Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir vildi afturkalla lóð til múslima þagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hins vegar um málið í tæpa viku og gagnrýndi svo umræðuna um málið.

Skoðum muninn.

Mánudagur 12. janúar

Vísir birtir frétt um  vangaveltur Ásmundar Friðrikssonar á Facebook. Þar spurði hann: „Hefur bakgrunnur þeirra 1500 múslima sem búa á Íslandi verið kannaður og hvort einhverjir „íslenskir múslimar“ hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima?“

Þriðjudagur 13. janúar

bjarni_20

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ekkert tilefni til að skoða bakgrunn múslima á Íslandi í ljósi hryðjuverkanna í Frakklandi. Hugmyndir Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns endurspegli ekki viðhorf Sjálfstæðisflokksins – hann hafi farið fram úr sér.

Spólum aftur í tíma að sveitarstjórnarkosningunum í fyrra:

Föstudagur 23. maí.

sveinbjorg2

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina, sagði í frétt á Vísi að hún vildi að lóð sem var úthlutað til byggingar mosku í Reykjavík yrði afturkölluð. Múslimar fengu úthlutað lóð við Suðurlandsbraut í september í fyrra.

„Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna,“ sagði hún.

Fimmtudagur 29. maí.

sigmundur_6

Eftir að hafa verið gagnrýndur fyrir þögn sína í málinu birti Sigmundur Davíð yfirlýsingu á Facebook, sex dögum eftir að umræðan hófst. Hann tók ekki afstöðu til ummæla Sveinbjargar en gagnrýndi umræðuna og sagði ljóst að ómögulegt væri að ræða sum mál af yfirvegun:

„Það er með ólíkindum hvað menn leggjast sumir lágt í tilraunum til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Þegar menn seilast svo langt að saka heilu hópana um kynþáttaníð að ósekju þá er það ekki bara alvarlegt mál fyrir þá sem fyrir því verða heldur fyrir samfélagið allt.“

Auglýsing

læk

Instagram