Mikilvægt að minnka skrímslavæðingu gerenda

Druslugangan verður gengin í sjöunda sinn í dag. Gangan fer af stað frá Hallgrímskirkju klukkan 14 og endar á Austurvelli þar sem haldnar verða ræður og tónlistarmenn koma fram.

Tónlistarmennirnir Sykur, GDRN og DJ Dóra Júlía koma fram og ræður flytja María Rut Kristinsdóttir, fyrrverandi talskona Druslugöngunnar, framhaldshópur frá Stígamótum og Kiana Sif Limehouse og Helga Elín Herleifsdóttir, sem lögðu fram kæru á hendur Aðalbergi Sveinssyni, lögreglumanni hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þema göngunnar í ár er að það er ekkert þema. Áhersla er lögð á að ofbeldi sé allskonar, mismunandi og marglaga.

Sjá einnig: Skora á ráðamenn og lögreglu að mæta í Druslugönguna: „Innan ykkar raða eru enn þá einstaklingar sem bregðast okkur”

Helga Lind Mar, ein af skipuleggjendum göngunnar í ár, segir í samtali við Fréttablaðið að það þurfi að minnka skrímslavæðingu gerenda, gerendur séu allskonar en ekki bara steríótýpískar ímyndir sem við erum búin að stilla upp í höfðinu á okkur.

Hún segir að það þurfi að standa með þolendum jafnvel þótt gerendur séu vinir. Á meðan samfélaginu er stillt upp á móti gerendum sé erfiðara fyrir einstaklinga að átta sig á því hvort hafi verið farið yfir einhver mörk.

Við sem samfélag erum bæði ábyrg fyrir þeim einstaklingum sem eru þolendur en við erum líka ábyrg fyrir þeim sem eru gerendur. Það þarf að skoða rót vandans. Á meðan við gerum okkur ekki grein fyrir því að gerendur eru allskonar þá ýtum við líka undir það að gerendur gangist ekki við brotum sínum.

Aðstandendur göngunnar búast við að um 20 þúsund manns láti sjá sig í göngunni í dag.

Auglýsing

læk

Instagram