Mjólkursamsalan vill að Borg brugghús hætti að nota Klóa til að selja bjór

Mjólkursamsalan, MS, hefur sent Borg brugghúsi bréf þar sem farið er fram á að brugghúsið hætti að nota auðkennið Klói í starfsemi sinni. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Forsaga málsins er sú að í sumar sendi Borg frá sér bjór sem bar nafnið Klói og var svokallaður „kókó porter“. Bjórinn var með súkkulaðihismi frá Omnom og var í boði í takmarkaðan tíma á börum og veitingastöðum. Í merki bjórsins er að finna gulan og bleikan, sem eru einkennislitir kattarins Klóa, sem hefur fullyrt í áratugi að maður fái kraft úr kókómjólk.

Í bréfi MS til Borgar, sem Morgunblaðið vitnar í, kemur meðal annars fram að á þeim áratugum sem MS hefur notað köttinn Klóa til auðkenningar á kókómjólk hafi fyrirtækið skapað auðkenninu markaðsfestu og áunnið því viðskiptavild. „MS telur því einnig að notkun Borgar á auðkenninu feli í sér óréttmæta viðskiptahætti sem séu til þess fallnir að afla félaginu viðskipta með ótilhlýðilegum hætti á kostnað áralangrar markaðssetningar MS,“ segir í bréfinu.

Þá kemur fram í bréfinu að Borg staðfesti innan 15 daga frá dagsetningu þess að hætt verði notkun á auðkenninu Klói eða lausn fundin á málinu. „Verði ekki við þessu orðið á MS þann kost einan að leita réttar síns fyrir viðeigandi stjórnvöldum eða dómstólum landsins,“ segir í bréfinu.

Árni Theodór Long, bruggmeistari hjá Borg, furðar sig á upphlaupi MS í samtali við Morgunblaðið.  „Jú, við fengum einhvern svona póst. Ég var nú alveg búinn að gleyma þessu súkkulaðimjólkurdæmi – ég var líka alltaf meiri Kappa-maður. Svo er ég litblindur í þokkabót. “

Auglýsing

læk

Instagram